Sögu lokið með óvæntum sigri Ár­manns

Alexander Egill, fyrirliði Ármanns, telur sig og sína menn bara …
Alexander Egill, fyrirliði Ármanns, telur sig og sína menn bara þurfa að eiga góðan dag og þá gætu þeir átt góða möguleika á móti Þór.

Úrslitakeppni Ljósleiðaradeildarinnar í Counter Strike hófst í gærkvöld þegar Saga og Ármann mættust í viðureign sem lauk nokkuð óvænt með 2:1-sigri Ármanns. 

Ármenningar mættu kaldir til leiks og töpuðu fyrsta leiknum en komust á skrið og jöfnuðu í öðrum leiknum og gerðu síðan út af við Sögu í þriðja leiknum 13:6. 

Tóm­as Jó­hanns­son og Ein­ar Ragn­ars­son voru á sínum stað og lýstu viðureigninni og augljóst var að úrslitin komu þeim nokkuð á óvart. „Ég sá þetta ekki fyrir,“ sagði Einar og bætti við að hann væri eiginlega orðlaus. 

Ármann mætir toppliði Þórs á þriðjudaginn eftir viku og Einar sagði ljóst að sá leikur verði þeim erfiður. 

Fyrirliði Ármanns, Alexander Egill Guðmundsson (Hundzi) ræddi við Tómas og Einar eftir leikina þrjá og sagðist aðspurður telja sig og sína menn alveg eiga tækifæri á móti Þórsurum. Allt færi þetta eftir dagsforminu. „Mér líður eins og við getum unnið alla á góðum degi en líka tapað fyrir öllum á slæmum degi,“ sagði Alexander vígreifur.

Næsti úrslitaleikur fer fram á fimmtudaginn þegar Veca og Kano berjast um hvort liðið haldi áfram til þess að mæta Dusty viku síðar.

Úrslitakeppnin fer síðan fram fyrir fullu húsi í Arena laugardaginn 16. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka