Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup er mest spilað af tölvuleikjum á Austurlandi þar sem 71% sögðust spila einhvers konar tölvuleiki.
Drjúgur helmingur Íslendinga spilar tölvuleiki ef marka má nýja skoðanakönnun Gallup þar sem 62,5% svöruðu spurningunni um hvort þau spiluðu tölvuleiki játandi.
Niðurstöður könnunarinnar sýna marktækan mun eftir búsetu en 66% Reykvíkinga segjast spila tölvuleiki og 65% í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Leikjaspilunin annars staðar á landinu er heilt yfir aðeins minni, eða 57%.
Þegar litið er á svörin eftir landshlutum vekur hins vegar athygli að tölvuleikjaspilun er áberandi almennust á Austurlandi og Vestfjörðum.
Flest segjast spila á Austurlandi, 71%, og Vestfirðingarnir gefa lítið eftir en þar segjast 70% spila tölvuleiki. Samkvæmt könnunni virðist minnst vera um tölvuleikjaspilun á Suðurnesjum þar sem 57% segjast ekki spila á móti 43% virka spilara.
66% íbúa á höfuðborgarsvæðinu segjast spila tölvuleiki og hlutfall leikjaspilara á Suður- og Norðurlandi er það sama, 58% en á Vesturlandi segjast 52% spila tölvuleiki.
Könnunin var gerð á netinu fyrstu tólf daga ágústmánaðar 2024. Úrtakið, 1748 manns, var valið af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup af öllu landinu, 18 ára og eldri. Þátttaka var 48% þar sem 849 svöruðu en 899 ekki.