„Við erum miklu betri en þessir gæjar“

„Hélduði að ég væri að fara að missa af úrslitaleik?“ …
„Hélduði að ég væri að fara að missa af úrslitaleik?“ spurði Ásmundur Viggósson (Pandaz) þá Tómas og Einar í viðtali eftir sigurleikinn gegn Ármanni.

Þór tryggði sig áfram í úrslitaleikinn í Counter Strike með öruggum sigri, 2:0, á móti Ármanni í fyrri undanúrslitaleik Ljósleiðaradeildarinnar í gærkvöld.

Liðin tókust á í Vertigo í fyrri leik kvöldsins og þar völtuðu Þórsarar sannfærandi yfir andstæðingana 13:2. Ármenningar börðust aftur á móti eins og ljón í Dust II en þurftu þó að lúta í lægra haldi 13:11.

Tóm­as Jó­hanns­son og Ein­ar Ragn­ars­son lýstu leiknum í beinni útsendingu og þótt þeir hafi fyrir fram reiknað með sigri Þórs voru þeir farnir að spennast verulega upp í seinni leiknum og sjá bráðabana í hillingum.

„Þeir eru góðir í Dusk II,“ sagði helsti stuðbolti Þórsara, Ásmundur Viggósson (Pandaz), í viðtali við Tómas og Einar eftir leikinn. Hann bætti síðan við: „Við erum miklu betri en þessir gæjar.“

Veca og Dusty takast á í seinni undanúrslitaleiknum á fimmtudaginn og þá fæst úr því skorið hvoru liðinu Þórsarar munu mæta í baráttunni um titilinn á laugardaginn. 

Sigursælir Þórsarar mæta annaðhvort Veca eða Dusty í úrslitaleik Ljósleiðaradeildarinnar …
Sigursælir Þórsarar mæta annaðhvort Veca eða Dusty í úrslitaleik Ljósleiðaradeildarinnar á laugardagskvöld.

„Mér er alveg sama hverjum ég mæti,“ sagði Ásmundur í beinni útsendingu eftir leikinn en sagðist frekar eiga von á því að Veca kæmust í úrslitin. „Ég held að Veca séu mikið stabílli.“

Ármenningar hafa hins vegar lokið keppni á þessu ári en mega vel við una og fyrir leik gærkvöldsins sagði Thomas Thomsen (7homsen) að þeir væru komnir fram úr eigin væntingum en væru „ekki komnir hingað til að tapa“. Sem þeir þó gerðu en ganga sáttir af velli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert