OGV öruggur deildar­meistari í Rocket Leagu­e

Karvel og félagar í OGV eru öruggir með sigur í …
Karvel og félagar í OGV eru öruggir með sigur í GR Verk deildinni eftir sigur á Munda og hinum í liði 354.

Níunda og næstsíðasta umferð GR Verk Deildarinnar í Rocket League fór fram í gær og með sigri OGV á 354 og tapi Þórs á móti Dusty liggur nú þegar ljóst fyrir að ekkert getur komið í veg fyrir að OGV hampi deildarmeistaratitlinum.

Óslitin sigurganga OGV hélt áfram með 3:0-sigri á 354 í gærkvöld og eftir 9. umferð er ljóst að deildarsigur OGV er öruggur þar sem Dusty gerði með 3:1-sigri á Þór út um síðustu von Þórsara um að komast yfir OGV á endasprettinum í 10. umferð.

Þórsarar hafa undanfarið verið á hælum OGV í 2. sæti en þegar aðeins 10. umferð er eftir trónir OGV á toppnum með 18 stig. Þórsarar eru í 2. sæti með 14 stig. Fjórum stigum á eftir OGV og því bæði pólitískur- og tölfræðilegur ómöguleiki að vinna það forskot upp í einni umferð.

Snorri og Brimar lýstu viðureignum umferðarinnar í beinni útsendingu og sammæltust um að viðureignin hafi verið „fáránlega vel spiluð“ hjá OGV sem hafi þarna átt sinn besta leik á tímabilinu.

Þá bar einnig til tíðinda gærkvöldsins að Quick vann 3:1 á móti Rafík og komst þar með loksins á blað með sínum fyrsta sigri á tímabilinu. Ekki seinna vænna en stig eru stig eins og lýsendurnir Snorri og Brimar bentu svo skarplega á.

Staðan í GR Verk Deildinni fyrir 10. umferð:

1. OGV     18

2. Þór       14

3. Dusty    10

4. 354         6

5. Rafík       4

6. Quick      2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert