„Við getum nú teflt mun betur“

Með sigrinum á Jóhanni Hjartarsyni er Hjörvar Steinn kominn í …
Með sigrinum á Jóhanni Hjartarsyni er Hjörvar Steinn kominn í undanúrslit og mætir þar næst Guðmundi Kjartanssyni. mbl.is/Ásdís

Helgi Ólafsson og Hjörvar Steinn Grétarsson eru komn­ir áfram í undanúr­slit Íslandsmóts Símans í netskák eftir sigra á Braga Þorfinnssyni og Jóhanni Hjartarsyni í einvígjum sunnudagskvöldsins.

Bragi og Helgi riðu á vaðið í gærkvöld í því sem átti eftir að reynast hörkueinvígi. Bragi byrjaði betur en baráttan var síðan nokkuð jöfn þangað til Helgi sigldi fram úr. Ekki síst vegna þess að tímastjórnun hans var mun betri.

Helgi Ólafsson er kominn í undanúrslitin eftir sigur í einvíginu …
Helgi Ólafsson er kominn í undanúrslitin eftir sigur í einvíginu gegn Braga Þorfinnssyni. Næsti andstæðingur hans er Björn, bróðir Braga.

Helgi var kominn með fimm vinninga á móti fjórum þegar lýsendurnir Ingvar Þór Jó­hann­es­son og Björn Ívar Karls­son voru farnir að gæla við bráðabana. Skákinni lauk hins vegar skömmu síðar með  jafntefli og einvíginu um leið með 5,5 vinningum Helga á móti 4,5 hjá Braga.

Bjössi bróðir næstur

Helgi tók í stuttu viðtali við Ingvar undir að þetta hefði verið hörkueinvígi og „mikil barátta“ þar sem hann hafi verið „smá tíma til að komast i gang.“ Ingvar benti Helga síðan á að þetta þýddi að næsti andstæðingur hans í undanúrslitum verði Björn Þorfinnsson, bróðir Braga.

„Já, það er ekkert annað,“ sagði Helgi. „Ég hef bara gaman að því að tefla við þá bræður og óska honum bara alls hins besta í því einvígi,“ bætti hann við hlæjandi.


Geta báðir teflt betur

Hjörvar Steinn og Jóhann Hjartarson mættust í seinna einvígi kvöldsins og þar sagðist Ingvar eiga von á spennandi einvígi. Þeir Björn Ívar voru þó á því að báðir væru Jóhann og Hjörvar þannig skákmenn að ef þeir byrjuðu vel gætu þeir unnið þetta hratt og örugglega.

Leikar fóru síðan þannig að lokaskákin endaði með jafntefli og Hjörvar Steinn sigraði einvígið með fimm og hálfum vinningi á móti þremur og hálfum hjá Jóhanni.

Ingvar og Björn voru á því að baráttan hefði verið skemmtileg og báðir sýnt vandaða taflmennsku. Eitthvað sem Hjörvar var ekki alveg tilbúinn að taka undir í viðtali við Björn.

Lýsendum þótti taflmennska Jóhanns og Hjörvars vönduð. Eitthvað sem Hjörvar …
Lýsendum þótti taflmennska Jóhanns og Hjörvars vönduð. Eitthvað sem Hjörvar gat ekki tekið undir.

„Já, þá eruð þið einir um það. Ég held að við getum nú teflt mun betur, við Jói,“ sagði Hjörvar sem mætir Guðmundi Kjartanssyni í undanúrslitum og um það hafði hann þetta að segja:

Aldrei gaman að tefla við Guðmund

„Það er aldrei gaman að tefla við Guðmund. Ekki af því að ég held endilega að ég tapi. Það er bara leiðinlegt að tefla á móti honum. Ég er með mjög slæmt skor á móti Gumma. Ég held að Helgi Áss sé með betra skor en Gummi á mig en ég held að Gummi sé svona næstur í röðinni.“

Hjörvar sagði að Guðmundur væri því enginn óskaandstæðingur. „Ég þarf örugglega að tefla betur en í kvöld til að vinna.“

Íslandsmót Símans í netskák heldur áfram sunnudaginn 1. desember með einvígi Helga Ólafssonar og Björns Þorfinnssonar í undanúrslitum þar sem sá síðarnefndi fær tækifæri til að hefna bræðravígsins síðan í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert