Hamagangurinn í leik Quick og 354 í tíundu og síðustu umferð GR Verk Deildarinnar í Rocket League var slíkur að Kristófer Óli hefði helst viljað komast í sturtu eftir að hafa lýst hetjulegri baráttu Quick fyrir framhaldslífi sínu í deildinni.
Lokaleikir GR Verk Deildarinnar fyrir hin svokölluðu „playoffs“ á laugardaginn fóru fram á miðvikudagskvöld. Fyrir leik sinn gegn 354 átti botnlið deildarinnar smá von um að geta haldið sér í úrvalsdeild og bauð því upp á hörkuleik gegn 354.
Sigurviljinn dugði liðinu þó ekki og 354 vann viðureignina 3:2 eftir tvísýna baráttu. „Vá! Ég gæti þurft að fara í sturtu eftir þennan leik. Núna, helst,“ sagði Kristófer Óli á háu nótunum eftir viðureignina sem hann lýsti í beinni útsendingu ásamt Steingrími Karlssyni.
Ekki var það heldur til að bæta stöðu Quick að Rafík, sem er í næst neðsta sæti deildarinnar, fékk fyrirhafnarlausan sigur í leik sínum gegn Dusty, 3:0, þar sem Dusty náði ekki að manna lið sitt og þurfti að gefa leikinn. Þannig að ljóst er að Quick er fallið lóðbeint niður í 1. deild.
Topplið OGV og Þórs skildu síðan 3:2 þannig að OGV, sem hefur ekki tapað viðureign á tímabilinu, trónir eftir tíu umferðir, á toppi deildarinnar með 20 stig á móti 14 stigum Þórsara.
Úrslitaleikir deildarinnar fara síðan fram í Arena á laugardaginn en fjörið þá hefst með undanúrslitaleikjum OGV og 354 annars vegar og Þórs og Dusty hins vegar.
1. OGV 20
2. Þór 14
3. Dusty 10
4. 354 8
5. Rafík 6
6 Quick 2