„Við gerðum bara það sem við þurftum að gera,“ sögðu liðsmenn Dusty að loknum frækilegum sigri á Þór í úrslitaviðureign Tölvudeildarbikarsins í Overwatch á föstudagskvöld.
Dusty er meistari Tölvulistadeildarinnar í Overwatch, annað árið í röð, eftir að hafa rofið óslitna sigurgöngu Þórsara á tímabilinu með 4:1 sigri í úrslitaleik deildarinnar í gærkvöld.
Þórsarar komu í úrslitin ósigraðir á reglulegu leiktímabili og þessar afgerandi lokatölur komu því nokkuð á óvart. Alltaf lá þó fyrir að hart yrði barist þar sem Dusty hafði titil að verja og Þór, sem fyrrverandi meistari á hvínandi siglingu, hafði tækifæri til að endurheimta.
Liðsmenn Dusty viðurkenndu fúslega, í viðtali eftir leik, að Þórsarar hafi spilað frábærlega á tímabilinu og meðal annars leikið þá grátt í deildinni en að loknum tíu umferðum var Þór í efsta sæti með 30 stig á móti 25 stigum Dusty í öðru sætinu.
Strákarnir í Dusty sögðu að móralinn í liðinu væri skýjum ofar eftir sigurinn. Þeir hafi verið vel meðvitaðir um hversu hættulegir andstæðingarnir væru en trúðu því að nú skipti bara máli að spila vel eina helgi.
„Og það er það sem við gerðum. Við spilum bara vel þegar það skiptir máli og gerðum bara það sem við þurftum að gera.“
Þórsarar báru sig vel eftir tapið enda búnir að eiga „næstum óaðfinnanlegt“ tímabil eins og það var orðað. Þeir sögðust einfaldlega ekki hafa náð sér á strik á endasprettinum og hljóti almennt að vera miklu sáttari við hefðbundna tímabilið en frammistöðu gærdagsins.
Áður en Þór og Dusty tókust á um meistaratitilinn í gærkvöld kepptu Selir og Tröll um 3. sætið og lauk þeirri viðureign með 3:0 sigri Tröllanna.