Til­finninga­hlaðið úr­slita­upp­gjör

Lærisveinninn, Hjörvar Steinn, og kennarinn, Helgi Ólafsson, munu tefla til …
Lærisveinninn, Hjörvar Steinn, og kennarinn, Helgi Ólafsson, munu tefla til úrslita Íslandsmóts Símans í netskák.

Hjörvar Steinn Grétarsson og Helgi Ólafsson komust í úrslit Íslandsmótsins í netskák í gær. Hjörvar með sigri á Guðmundi Kjartanssyni og Helgi með því að leggja Björn Þorfinnsson að velli.

Báðum undanúrslitaviðureignunum lauk með 5,5 vinningum á móti 2,5 en stórmeistaraeinvígi þeirra Hjörvars og Guðmundar var þó mun jafnara og Hjörvar þurfti að hafa nokkuð fyrir sigrinum.

Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson og stórmeistarinn Helgi Ólafsson áttust við í seinna einvíginu og áður en leikar hófust bentu lýsendurnir, Björn Ívar Karls­son og Ingvar Þór Jó­hann­es­son, á að Helgi ætti almennt að þykja sterkari á svellinu.

Guðmundur og Björn máttu lúta í lægra haldi í undanúrslitum …
Guðmundur og Björn máttu lúta í lægra haldi í undanúrslitum fyrir Hjörvari, annars vegar, og Helga hins vegar.

Sú varð líka raunin og Helgi hafði betur með 5,5 vinningum á móti 2,5 vinningum Björns sem lánaðist þannig ekki að hefna bræðravígsins en Helgi felldi Braga, bróður Björns, úr keppni í síðustu umferð.

Það kemur því í hlut kennarans og lærisveinsins, Helga og Hjörvars, að berjast um Íslandsmeistaratitilinn á sunnudaginn, 8. desember. Varla er við öðru að búast en sú barátta verði þrungin spennu og tilfinningum því Helgi hefur lýst Hjörvari sem einum af sínum uppáhalds nemendum og Hjörvar hefur áður sagt að honum sé ekki vel við að vinna Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert