Dusty hampaði Tölvulistabikarnum í Overwatch, annað árið í röð, eftir að hafa rofið óslitna sigurgöngu Þórsara á tímabilinu með 4:1 sigri í úrslitum á laugardagskvöld.
„Það er náttúrlega alltaf ógeðslega gaman að keppa og við unnum náttúrlega titilinn síðast og bárum höfuðið því hátt í byrjun tímabilsins og áttum ekki von á því að þetta myndi ganga illa,“ segir Ingi Þór en keppnistímabilið var nokkuð köflótt hjá liðinu.
„Við töpuðum helling af leikjum til að byrja með og þar á meðal báðum leikjunum á móti Þór.“ Ingi Þór heldur því þó til haga að Dusty hafi tapað naumlega fyrir Þór í deildinni í leikjum þar sem brugðið gat til beggja vona.
„Þeir komu rosalega sterkir inn í hefðbundna tímabilið og fóru taplausir í gegnum það“, heldur Ingi Þór áfram en þegar liðin mættust, eftir tíu umferðir, í úrslitum, var Þór í efsta sæti deildarinnar með 30 stig á móti 25 stigum Dusty í öðru sætinu.
Góðir undir pressu
„Þótt þeir hafi verið taplausir þá unnum við úrslitaleikinn,“ segir Ingi Þór og segist telja að mikil keppnisreynsla hans manna undanfarið geti mögulega hafa skipt sköpum.
„Í gegnum tímabilið erum við í Dusty búnir að vera að keppa í alþjóðlegum deildum og bara öllum mótum sem hafa poppað upp. Bara til þess að fá reynsluna af því að keppa undir pressu í stressandi umhverfi. Meira að segja bara núna, daginn fyrir úrslitin, þá kepptum við í útslætti í annarri deild sem var líka streymt út fyrir áhorfendur.
Þannig að við komum inn í þennan úrslitaleik með mikla reynslu af pressunni sem það setur á mann að vera að keppa fyrir framan áhorfendur. Ég held allaveganna að frá fyrsta leiknum hafi þetta munað miklu fyrir okkur. „Það var engin taugaveiklun í gangi og menn spiluðu bara upp á sitt besta.“
Stuðningsfólk liðanna fjölmennti í Arena til þess að hvetja sína menn og fá spennuna beint í æð og eins og meðfylgjandi myndir sýna voru stemningin og stuðið byrjuð vel fyrir leik og héldu dampi langt fram eftir kvöldi þótt gleðin hafi að sjálfsögðu verið mismikil eftir aðstæðum og atvikum.