Helgin framundan gefur góða mynd af breiddinni í keppnisgreinum Rafíþróttasambands Íslands þegar öflugustu keppendur þriggja deilda mætast í Arena og heyja ýmist einvígi eða hópbardaga í úrslitum Valorant kvenna, Fortnite og netskák.
Umfangsmesta úrslitahelgi ársins hjá RÍSÍ hefst á föstudaginn þegar Valkyrjur, þó ekki þessar sem eru að reyna að mynda ríkisstjórn, mæta harðsnúnu liði Klutz í lokauppbjöri Mílu-Deildarinnar í Valorant kvenna.
Óhætt er að gefa nú þegar út appelsínugula háspennuviðvörun þar sem í kortunum eru hvorki meira né minna en tvær hörkuviðureignir og allt í járnum í baráttunni um þrjú efstu sæti deildarinnar.
Venus og GoldDiggers byrja á því að takast á um þriðja sætið áður en stóra stundin rennur upp og Valkyrjurnar, sem eru til alls líklegar, freista þess að leggja að velli, öflugasta lið deildarinnar á pappírum, Klutz.
Rétt eins og á öðrum nýliðnum úrslitakvöldum verður um heilmikinn gleðskap að ræða Í Arena. Sigurður Grétar Sigurðsson, þekktari í leik sem „Steypa“, sér um veislustjórn en öðrum þræði er kvöldið uppskeruhátið og hálgert ígildi árshátíðar Valorant-samfélagsins sem hefur verið í bullandi sókn undanfarið.
Öll eru að sjálfsögðu velkomin á meðan húsrúm leyfir en húsið opnar klukkan 17 og beint streymi frá spennuþrunginni gleðinni hefst klukkan 18.
Spennustigið verður ekkert lægra á úrslitakvöldi ELKO-Deildarinnar í Fortnite á laugardeginum þegar hópur keppenda berst þar til aðeins einn stendur uppi sem sigurvegari.
Arena opnar klukkan 16 og fjörið hefst með feluleik (Hide&Seek) og gestir geta síðan einnig keppt um titilinn ELKO Þrautahetjan.
Þar verða sjálfsagt flestra augu á yfirburðakeppendunum og höfuðanstæðingum tímabilsins Denasi Kazulis og Kristófer Tristan sem hafa í raun háð einvígi á toppi ELKO-Deildarinnar meira eða minna allt keppnistímabilið.
Veislustjórn verður í höndum hinnar ofurhressu Rósu Bjarkar Einarsdóttur, landsliðskonu í Counter Strike, þannig að útilokað er láta sér leiðast þangað til úrslitakeppnin hefst.
Hefðbundnu tímabili lauk, eftir tíu vikur og tuttugu leiki, með sigri Denasar með 428 stig á móti 415 stigum Kristófers sem fær nú tækifæri til að hefna þeirra harma.
Sérstök verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin á úrslitakvöldinu; 60.000, 25.000 og 15.000. Báðir eiga þeir, Denas og Kristófer, því möguleika á að drýgja verðlaunasjóði sína en Denas hefur þegar fengið 125.000 krónur fyrir sigurinn í deildinni og Kristófer fékk 50.000 krónur fyrir 2. sætið.
Stóru úrslitahelginni lýkur síðan í Arena á sunnudaginn þegar stórmeistararnir Helgi Ólafsson og Hjörvar Steinn Grétarsson tefla til úrslita á Íslandsmóti Símans í netskák.
Húsið opnar klukkan 19 og streymi hefst klukkan 20 en rétt að benda áhugasömum á að það er alger afleikur að koma ekki á staðinn því veislustjóri kvöldsins er einhver allra hressasti og skemmtilegasti núlifandi skákmaður landsins, Björn Þorfinnsson.
Hann bregður sér greinilega hvorki við sár né bana því Helgi felldi hann úr keppni í undanúrslitum en hann er staðinn upp, gleiðbrosandi, og til í tuskið á hliðarlínunni.
„Ég á von á mjög jöfnu einvígi,“ segir skákskýrandinn Björn Ívar Karlsson og bendir á að þeim Helga og Hjörvari hafi hingað til að mestu tekist að forðast tímahrak og mistök. Þetta hafi skilað þeim báðum alla leið í úrslitin en nú muni sennilega virkilega reyna á hvor þeirra sé sterkari undir tímapressu.