Íslandsmeistarar Þórs voru frekir til fjörsins á úrslitakvöldi GR Verk Deildarinnar í Rocket League en auk þess að hampa bikarnum sópuðu þeir til sín viðurkenningum fyrir frammistöðuna á tímabilinu.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var stuðið keyrt í botn í Arena á laugardagskvöld þegar keppnistímabil GR Verk Deildarinnar í Rocket League var klárað með góðri uppskeruhátíð og hörkuspennandi úrslitaviðureign Þórs og OGV.
Kvöldið varð býsna rautt áður en upp var staðið en auk þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn með 4:1-sigri hlutu liðsmenn Þórs flestar viðurkenningar fyrir ýmis tilþrif og seiglu á tímabilinu.
Varla er á nokkurn hallað þegar því er slegið fram að Þórsarinn Elias „Regser“ Marjala hafi verið maður kvöldsins og jafnvel tímabilsins.
Sérstaklega þegar horft er til fjölda viðurkenninga en Elias var bæði valinn Markamaskína og Skytta tímabilsins auk þess að hljóta titilinn Oat King tímabilsins.
Liðsfélagi Eliasar, Kristján „pabbi4“ Elmar Gottskálksson, var útnefndur Klessubílakóngur tímabilsins en Munda úr 354 tókst að bjarga einni viðurkenningu frá því að enda fyrir norðan með því að krækja í titilinn Stoðsendingaséní tímabilsins.