Fragg-bræður í jólakeppnisskapi

Jón Þór og Tómas keyra Fragg-mótið áfram á aðventunni og …
Jón Þór og Tómas keyra Fragg-mótið áfram á aðventunni og eru að gíra sig upp fyrir lýsingar á nokkrum leikjum.

Fragg-mótið í Counter Strike, sem kennt er við samnefnt hlaðvarp félaganna Tómasar Jóhannssonar og Jóns Þórs Hermannssonar, er í fullum gangi en því lýkur korter í jól með úrslitaveislu í Arena 21. desember.

„Við köllum þetta Póló X Fraggið-mótið og það stendur í svona um það bil mánuð,“ segir Tómas. „Við byrjuðum á deildakeppni nýlega og riðlakeppnin var að klárast. Þannig að nú byrjar úrslitakeppnin með sextán liða úrslitum og svo lokast þetta helgina 20. - 21. desember.“

Tómas bætir við að verðlaunaféð á mótinu nemi 1,1 milljón króna. „Það safnaðist ágætlega í þetta. Þökk sé Póló, bakhjarlinum okkar, en án þeirra hefði ekki verið hægt að hafa svona veglegt verðlaunafé,“ segir hann nokkuð hróðugur. 

„Það eru eiginlega bara öll lið að taka þátt núna. Sérstaklega svona toppurinn en menn og konur að prófa nýjar samsetningar eða „line up“ sem er bara mjög spennandi,“ segir Tómas öllum hnútum kunnugur eftir að vera nýbúinn að lýsa viðureignum í Ljósleiðaradeildinni.

Það er engin leið að hætta hjá Tómasi sem stóð …
Það er engin leið að hætta hjá Tómasi sem stóð vaktina á nýloknu keppnistímabili Ljósleiðaradeildarinnar og er strax kominn á fullt í öðru móti. Skjáskot/RÍSÍ

Hann bendir á að eitthvað sé um að lið keppi undir sömu merkjum og í Ljósleiðaradeildinni og víðar en þó með aðeins breyttri liðsskipan. „Og þá kannski með öðruvísi og sterkara „line up“ að mörgu leyti.“

Og stekkurðu bara beint í þetta úr Ljósleiðaradeildinni? Er ekki komin nein þreyta í þig eða er þetta bara svona skemmtilegt?

„Þreyttur?“ hváir hann undrandi. „Þetta er bara hark eins og allt annað,“ bætir hann við og ljóst að þeim félögum rennur blóðið til skyldunnar. „Og við þurfum að stækka senuna og halda mikið af mótum fyrir liðin.“ 

Heldurðu að þetta verði eitthvað svipað og Ljósleiðaradeildin eða erum við að fara að sjá einhver lið koma á óvart?

„Það er góð spurning, sko. Ég býst við að Dusty og Þór komist allavegana í undanúrslitin. Bæði liðin eru náttúrlega með mjög sterk „line up“ og hafa lítið breyst. En þá verður síðan bara mjög spennandi að sjá hver hin tvö liðin verða.“

Tómas segir mótið þó ekki aðeins einblína á toppinn. „Við erum síðan með, innan gæsalappa, svona „best of the worst“ keppni þar sem þrjú neðri liðin í sjö liða riðlinum eru fara í svona „lower bracket“ og þar krýnum við líka sigurvegara sem fá eitthvað gotterí.“

Sextán liða úrslitin byrja á morgun, föstudag, og mótinu lýkur síðan, eins og áður segir, með pompi og prakt í Arena laugardaginn 21. desember. Tómas segir mótið vera að komast á það stig að þeir Jón Þór fari að rífa sig í gang og lýsa nokkrum leikjum á endasprettinum. 

„Síðan er mikið um að „community streamers“ taki upp á því að lýsa ákveðnum leikjum sem er mjög skemmtilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert