„Ég er mjög sáttur við hvernig þetta hefur þróast og mér þykir bara rosalega vænt um alla sem eru að taka þátt,“ segir Björgvin Gunnar Björgvinsson, „faðir“ Overwatch-samfélagsins á Íslandi.
„Og mér þykir rosalega vænt um samfélagið. Þetta er búið að vera ógeðslega gaman og ógeðslega gaman að sjá spilarana alltaf verða betri betri og betri,“ heldur Björgvin áfram.
Á úrslitakvöldi Tölvulistabikarsins í síðustu viku fór hvergi milli mála að samfélaginu þykir ekki síður vænt um Björgvin en þar notuðu Þórsarar tækifærið, eftir að hafa tapað fyrir Dusty í úrslitum, til þess að þakka honum alla hans óeigingjörnu vinnu í þágu Overwatch-samfélagsins.
Markús Pálmason, veislustjóri úrslitakvöldsins, tók heilshugar undir þetta og sagðist fullviss að fólkið úti í sal væri þeim sammála. „Ég man ennþá eftir deginum þar sem íslenska Overwatch-samfélagið var Facebook hópur,“ sagði hann og rifjaði upp þegar Björgvin spurði hópinn hvað fólki þætti um að halda íslenskt Overwatch-mót.
„Geðveik hugmynd og síðan þá er hann bara búinn að vera eins og faðir okkar allra og sjá um þetta allt,“ bætti Markús við og viðstaddir sammæltust um að án Björgvins væri ekkert í gangi í dag.
„Það var engin keppni í Overwatch á Íslandi og mig langaði rosalega mikið til þess að sjá það gerast,“ segir Björgvin þegar hann lítur til baka. „Ég var búinn að sjá að það var hellingur af fólki bara að spila þetta heima hjá sér og þegar betur var að gáð meira að segja bara fullt af góðum spilurum.
Þannig að ég fór að hugsa út í það hvað maður gæti gert og spurði samfélagið hvort þau myndu taka þátt ef ég færi í það að byrja þetta. Auðvitað var mikill áhugi á því og þannig byrjaði þetta eiginlega og vindur svo eiginlega bara upp á sig.“
Björgvin segir búið að vera sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með hversu mörg vináttusambönd hafi myndast milli spilaranna í samfélaginu. „Það er svo mikil vinátta sem myndast í kringum leikinn og maður sá þetta til dæmis bara núna hjá Þór og Dusty. Þarna voru bæði liðin að keppast við að vinna og þeir voru rosalega harðir en svo þegar þetta var búið þá var bara knúsast.“
Björgvin segir andstæðingana að sjálfsögðu hafa strítt hvor öðrum og létt skot gengið á milli en allt sé þetta samt í góðu og fjöldi góðra vinasambanda hafi myndast milli fólks sem þess á milli keppi af fullri hörku með sínum liðum.
„Auðvitað eru ekki allir sáttir alltaf og fólk segir mér kannski ekki frá öllu sem er í gangi en ég hef ekki orðið var við neitt óyfirstíganlegt.“
Björgvin hefur verið lengi á rafíþróttasenunni og byrjaði fyrst, eins og svo margir aðrir, í Counter Strike. „Ég hef verið í öllum andskotanum. Ég byrjaði auðvitað í Counter Strike, eins og örugglega flest allir hérna, og var mjög virkur CS-spilari í mörg ár. Allt frá, hvað heitir þetta, 1,0 upp í 1,6.“
Eftir að hafa spilað Counter Strike „alveg á fullu“ um langt árabil ákvað Björgvin síðan að láta staðar numið. „Ég fékk bara nóg af Counter Strike og fór bara að leika mér í hinu og þessu.
Ég prófaði League of Legends. Ég prófaði Dota og bara allan pakkann þangað til ég datt svo bara inn í Overwatch,“ segir Björgvin um leikinn sem dró hann aftur inn í rafíþróttaheiminn og hefur átt hug hans allan síðan.
„Maður er auðvitað orðinn svo gamall að ég veit ekkert hvort ég taki eitthvað upp aftur ef ég hætti einhvern tímann í Overwatch. En eins og staðan er þá hefur Overwatch verið og er ástríðan mín. Ég brenn fyrir þessu enda myndi maður ekki endast í þessu annars.“