„Ég setti saman alíslenskt lið með nokkrum sleggjum úr Overwatch-samfélaginu sem endaði í þriðja sæti í Evrópu,“ segir Ingi Þór Aðalsteinsson, þjálfari Dusty í Overwatch, um gott gengi íslenskrar sérsveitar sem hann setti saman fyrir keppni í lokaprófun, svokölluðu beta-testi, á nýja tölvuleiknum Marvel Rivals.
„Þetta er mjög skemmtilegur leikur. Mjög vel hannaður og fínpússaður og spilast svipað og Overwatch og er fersk nálgun á þessa tegund leikja,“ segir Ingi Þór um Marvel Rivals sem kom út í byrjun desember.
„Leikurinn hefur þegar vakið mikla athygli meðal annars vegna samvinnu við Fortnite og alls konar þannig fjör,“ segir Ingi Þór sem kom, ásamt félögum sínum í íslenska úrvalsliðinu MavrelJesus, sterkur inn á stórmót sem framleiðendur héldu í beta-testi Marvel Rivals fyrr á þessu ári.
Marvel-ævintýri Íslendinganna byrjaði síðasta vetur þegar Finnbirni Flosa Jónassyni, félaga Inga Þórs, bauðst að taka þátt í alpha-prófinu á Marvel Rivals. „Finnsi er fyrrverandi atvinnumaður í Overwatch. Hann var mjög spenntur fyrir leiknum og tókst í gegnum sambönd sín í atvinnumannaheiminum að redda sér boði í alpha-prófið.“
Finnbjörn kom Inga Þór einnig að í prófinu þar sem þeir klifruðu hratt upp metorðastigann í krafti hæfni þeirra í Overwatch. „Þetta er mjög svipað Overwatch nema bara að leikurinn er spilaður í þriðju persónu en bara allt gott um leikinn að segja og miðað við að þetta var alpha-test var þetta gífurlega vel fínpússaður og bara vel hannaður tölvuleikur.“
Prófunin komst síðan á það stig að ákveðið var að halda mót í leiknum en þó aðeins fyrir Ameríku. „Vinir Finnsa úr atvinnumennskunni í Overwatch ákváðu þó að búa til Evrópulið fyrir þetta Amaríkumót og okkur var boðið að vera með. Við kepptum síðan í þessu alpha-móti og gekk misvel.
Ingi Þór segir lið hans þó hafa náð að halda sér meðal þeira efstu og þeir hafi verið taldir til þeirra bestu á mótinu. Uppröðunin í útslættinum hafi hins vegar verið þeim óhagstæð og þeir hafi lent frekar snemma á móti liði sem einnig þótti með þeim bestu. „Þannig að við duttum leiðinlega snemma út en vorum engu að síður mjög spenntir fyrir næsta móti sem talað var um að kæmi síðar í beta-testinu.“
Íslensku sleggjurnar koma saman
Skömmu fyrir seinna mótið ákvað liðið þeirra hins vegar að halda ekki áfram og félagar þeirra dreifðust á nokkur önnur lið. Ingi Þór segir þá Finnbjörn þá hafa sett vini sína í íslenska Overwatch-samfélaginu inn í leikinn og spennan fyrir honum hafi verið mikil.
„Þannig að við söfnum bara saman nokkrum sleggjum, setjum saman lið og ákváðum að láta reyna á þetta beta-mót,“ segir Ingi Þór sem kallaði til áhugasama félaga sína úr Dusty og bestu spilarana í liði Þórs. „Okkur gengur síðan gríðarlega vel og töpum varla leik og komumst ofarlega á stigatöflunni.“
Ingi Þór þakkar þetta ekki síst reynslu þeirra Finnbjörns, sem höfðu spilað og keppt í Marvel Rivals áður, og hæfni og Overwatch reynslu félaga þeirra. „Þetta eru rosalega góðir Overwatch spilarar sem við þekkjum mjög vel til og við völtum bara eiginlega yfir öll liðin sem við mættum á mótinu.“
Það er að segja alveg þar til kom að undanúrslitum og þeir mættu hinu evrópska liðinu sem var meðal annars skipað félögum þeirra úr liðinu í fyrra prófinu. „Þetta eru núverandi eða fyrrverandi atvinnumenn og þeir sendu okkur niður í þriðja sætið og þar enduðum við í þessu móti.“
Úrvalsdeildarlið
MarvelJesus, sem notaðist við styttinguna ISL, var auk Finnbjörns (Finnsi) og Inga Þórs (cmd) skipað þeim Ingólfi Sigurðssyni (ILO), Aroni Markúsi Sigurjónssyni (Orion), Magnúsi Hinrik Bragassyni (Milkboy), Kristjáni Loga Guðmundssyni (Krizzi), Ólafi Ingva Sigurðssyni (sasa) og Hauki Hjartarsyni (Frankyboxing).
Ingi Þór, Ingólfur, Aron og Finnbjörn keppa í Overwatch með Íslandsmeisturum Dusty. Magnús, Kristján og Ólafur spila með Þór sem hafnaði í 2. sæti Tölvulistabikarsins eftir tap gegn Dusty um mánaðarmótin og Haukur spilar með Selunum í deildinni.
Stigið inn í Marvel-heiminn
Marvel Rivals er þriðju persónu skotleikur sem var gefinn út 6. desember fyrir Windows, PlayStation 5 og Xbox Series X/S. Eins og nafnið gefur skýrt til kynna á leikurinn sér stað í kvikmynda- og myndasöguheimi Marvel.
„Þetta er nákvæmlega sá heimur. The Avengers eru þarna og allir úr myndasögunum,“ segir Ingi Þór. „En þeir eru ekki í sama útliti og formi og í bíómyndunum og taka meira mið af myndasögunum, sem er svolítið skemmtilegt.“
Þrátt fyrir augljósan skyldleika við Overwatch og mikinn áhuga samfélagsins á Marvel Rivals telur Ingi Þór Overwatch ekki stafa mikil hætta af Marvel hetjunum. „Það er alltaf verið að tala um einhverja leiki sem muni drepa einhvern rótgrónari leik sem er vinsæll á sama tíma.
Þetta heyrist oft í sambandi við World of Warcraft ef eitthvað nýtt í líkingu við hann kemur: „Er þetta World of Warcraft killerinn?“ Og nú kemur þessi leikur og þá byrjar þetta strax: „Ah! Er þetta Overwatch killerinn?“
Ógnar ekki Overwatch
Ég stórefa að þetta muni hafa einhver gífurleg áhrif. En, jú, jú. Það munu ábyggilega einhverjir spilarar skipta yfir en ég held það sé ekki nein ógn eða hætta sem Overwatch þarf að hafa áhyggjur af.“
Ingi Þór segir þó rétt að taka fram að spennan í kringum Marvel-leikinn sé mjög mikil. „Og ég kem allaveganna til með að spila hann og þeir sem ég keppti með á mótinu munu gera það líka.“
Nokkuð hefur verið um kvartanir leikjaspilara yfir lítilli nýliðun og endurnýjun á leikjamarkaðnum undanfarin misseri og jafnvel ár. Ingi Þór segir aðspurður að undir þetta megi ef til vill taka að einhverju leyti.
„Það er allaveganna búið að vera frekar dapurt í þessum arena skotleikja hetju heimi. Þar er Overwatch bara búinn að vera stærstur og frekar mikil vöntun á svona skotleikjum þannig að Marvel Rivals er að koma sterkur inn fyrir hátíðarnar.“