Tæpum tveimur vikum eftir fyrirspurn um hver væri elsti Fortnite-spilari landsins hefur enginn yfir 45 ára gefið sig fram í Facebook-hópnum Tölvuleikjasamfélagið sem telur ríflega 10.000 manns.
„Ég var að spjalla við bróður minn og við vorum að velta fyrir okkur hver væri elsti Fortnite spilarinn á Íslandi,“ skrifaði forvitinn málshefjandi í Tölvuleikjasamfélaginu í byrjun desember þegar hann reyndi að fá úr því skorið hver væri elsti Fortnite-spilari landsins.
Fyrirspyrjandi lét fljóta með að hann veðjaði á aldursforseti íslenskra Fortnite-spilara væri líklega að minnsta kosti 58 ára en bróðir hans teldi viðkomandi hins vegar tæplega miklu eldri en 44 ára.
Spurningin vakti nokkur viðbrögð en enn sem komið er hefur enginn eldri en 45 ára stigið fram. „Ég er 45 en ekki virkur, spila stundum með strákunum mínum,“ sagði einn á meðan mun virkari jafnaldri greindi frá ofmati á eigin getu. Væntanlega í krafti aldurs og fyrri starfa:
„Ég er 45, var einmitt að segja strákunum mínum að þegar ég væri kominn með þetta í fartölvu með mús, þá myndi ég fljótlega ná þeim og sennilega fljótlega verða með þeim bestu í þessum leik ... kemur í ljós að það var alvarlegt ofmat.“
Fortnite nýtur gríðarlegra vinsælda hjá yngri spilurum og almennt talið að meirihluti spilara sé líklega á frá þrettán til um það bil 30 ára og þótt ekki hafi tekist að þrengja hringinn betur um þann elsta þykir víst að hann sé vel yfir 45 ára.
Þannig segist einn sem blandar sér í umræðuna þekkja 52 ára gamlan spilara sem sé þó líklega ekki meðlimur í Facebook-hópnum. Þá hefur Rafíþróttasambandið haft spurnir af einum sextugum sem þykir vel liðtækur í leiknum.
Ætla má að jafnvel megi einhvers staðar finna enn eldri Fortnite-spilara á Íslandi. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að skoska amman Cath Bowie er lifandi sönnun þess að efri aldursmörkin eru í það minnsta 75 ár.
Cath, sem spilar undir nafninu Grumpy Gran, er líklega þekktasti Fortnite-spilarinn úr röðum eldri borgara. Hróður hennar er slíkur að síðla árs fékk IKEA hana til þess að vera andlit nýrrar vörulínu tengdri leikjaspilun.
Hún heillaðist af leiknum 2017 þegar hún sá barnabarn sitt spila Fortnite í PlayStation 4 og hefur spilað nánast daglega árum saman. Hún er ekki síst sögð hafa heillast af litríkri grafíkinni í leiknum og félagslega þættinum en í gegnum Fortnite treysti hún bæði samband sitt við barnabarnið og komst í góð kynni við fjöldann allan af öðrum spilurum.