Tækniþróunarsjóður hefur veitt Ólafi Hrafni Steinarssyni og Esports Coaching Academy 50 milljón króna styrk til þróunar á stafrænum aðstoðarþjálfara í rafíþróttum en Ólafur telur að í krafti gervigreindarinnar geti íslenska rafíþróttahugmyndafræðin orðið alvöru útflutningsvara.
„Tækniþróunarsjóður á mikið lof skilið enda gegnir hann mikilvægu hlutverki fyrir sprotaumhverfið hérna á Íslandi og við erum gríðarlega þakklát Tækniþróunarsjóði fyrir að samþykkja umsókn okkar um þessa úthlutun,“ segir Ólafur Hrafn.
„Þetta samþykki frá fagráði Tækniþróunarsjóðs staðfestir í raun grun okkar um að samhliða tækninýjungum opnist hérna tækifæri til arðbærar nýsköpunnar og þannig lagað lítum við á þetta sem mikla viðurkenningu.“
Ólafur Hrafn segir Esports Coaching Academy undanfarið hafa unnið að því að byggja upp kerfi sem ætlað er að styðja við rafíþróttaþjálfun í samræmi við þá aðferðafræði sem byrjaði að þróast á Íslandi fyrir nokkrum árum og hefur verið í örum vexti.
„Esports Coaching Academy var í rauninni stofnað til þess flytja út þetta íslenska módel og hjálpa öðrum að byrja með starfsemi sem fylgir þessari formúlu um skipulagt starf sem byggir á þátttöku, jákvæðum gildum, heilbrigðri leikjaspilun og þess háttar.“
Esports Coaching Academy byggði rafíþróttaþjálfaramenntun sína á þessum grunni og hannaði vefkerfi til þess að auðvelda þjálfurum að setja upp og halda úti, því sem Ólafur kallar, hágæða æfingar.
„Ýmissa hluta vegna hefur reynst krefjandi að koma þessu í umferð erlendis. Stundum vantar kannski virk rafíþróttasamtök í viðkomandi landi eða viðhorf til tölvuleikja eru ekki komin jafn langt og á Íslandi og annað í þeim dúr. Síðan hafa þjálfarar sem hafa verið að vinna í þessu bara átt svolítið erfitt með allt utanumhald í kringum æfingarnar hjá sér.
Við teljum að þarna geti gervigreindin komið sterk inn með alls konar skemmtilega möguleika. Sérstaklega þegar kemur að rafíþróttum vegna þess að við höfum aðgang að miklu meiri gögnum um spilun leikmanna en í mörgum hefðbundnum íþróttum.
Ólafur Hrafn segir að til að byrja með verði einblínt á leikinn Valorant og verið sé að sækja um að fá að komast í gögn um spilara sem gætu orðið grunnurinn að mjög skilvirkum aðstoðarþjálfara sem ætti að létta mjög undir hjá þjálfurum þegar alls konar mikilvæg handavinna er annars vegar.
„Þegar við erum með aðgang að gögnunum þeirra getur gervigreindin sent þjálfaranum samantekt á frammistöðu allra eftir að æfingu lýkur. Hann getur þá séð hvort hann er að ná markmiðum sínum og hvort og hvernig hver og einn er að bæta sig.
Síðan höfum við náttúrlega núna líka tækifæri til að láta þetta kerfi ná út fyrir æfingar þannig að þegar spilarar eru að spila heima eða yfir lengra tímabil þá getum við fylgst með hvernig gögnin þeirra þróast og þjálfarinn getur þá fengið stöðuuppfærslur um hvort honum er að takast að koma öllu til skila.“
Ólafur Hrafn segir þau æfingatól sem fyrir eru á markaði aðallega byggja á samanburði gagna og hugsuð til að miðla þekkingu frá atvinnumönnum. Hugmyndin sé að gervigreindarþjálfarinn gangi skrefinu lengra
„Það er voðalega lítið tekið á þáttum eins og hversu oft í viku þú æfir þig, hvenær og hvað þú ert að leggja áherslu á hverju sinni. Hvað með heilbrigt mataræði? Svefn? Og að halda ró sinni í keppni? Þetta eru allt hlutir sem þjálfari hefur rosalega mikið um að segja í hefðbundnu íþróttastarfi.
Stærsti munurinn á þeirri vöru sem við viljum þróa og því sem er þarna úti í dag er kannski að við viljum virkilega reyna að búa til gervigreindarþjálfara sem getur virkilega hugsað um einstaklinginn. Sem skilur þjálfunarferlið, mikilvægi endurtekningar og þess að hafa strúktúr og aga.“
Ólafur Hrafn telur styrkinn frá Tækniþróunarsjóði segja mikið um rafíþróttaumhverfið á Íslandi. „Og hvað þetta hugtak og þessi hugmynd um tölvuleiki í skipulögðu og frammistöðumiðuðu starfi hefur í raun náð að skjóta sterkum rótum á síðustu sex árum.
Ég stend bara ennþá mjög fastur í þeirri trú að við hérna á Íslandi, sérstaklega þegar kemur að grasrótinni, höfum tekið mjög góðar ákvarðanir og gert mjög góða hluti sem eiga sér enga hliðstæðu á heimsvísu.
Okkur er að takast að reka ansi stórt umhverfi sem þjónar og auðgar líf þúsunda, ef ekki tugþúsunda, einstaklinga með reglubundnum hætti. Þetta er eitthvað sem ég bara bíð eftir og hlakka til að sjá önnur lönd ná að gera líka,“ segir Ólafur Hrafn sem hefur ekki síður trú á framtíðarafrekum íslensks rafíþróttafólks.
„Núna, þegar við erum að fá meiri tengingar við þetta hefðbundna íþróttaumhverfi, er spurning hvernig við getum á sem bestan hátt stuðlað að afreksþjálfun og komið okkar rafíþróttafólki langt. Komið þeim á verðlaunapalla eða bara komið fleirum út í atvinnumennsku.
Rafíþróttirnar eru að fá sína eigin Ólympíuleika og ég held að við eigum 100% séns í að ná einhverjum medalíum á Ólympíuleikum. Ef ekki bara strax á næsta ári þá á næstu tíu árum. Sérstaklega í ljósi þess hversu framarlega við erum í uppbyggingu á grasrótarhreyfingunni.“