Ár sóknar og áfangasigra hjá RÍSÍ

Ungmennastarf RÍSÍ var í miklum blóma á árinu sem er …
Ungmennastarf RÍSÍ var í miklum blóma á árinu sem er að líða. Ljósmynd/Atli Már

Þriðji hluti fréttaannáls Rafíþróttasambands Íslands stiklar á stóru yfir það helsta á viðburðaríku starfsári RÍSÍ þar sem aðildarfélögum hélt áfram að fjölga og Síminn byrjaði að senda út frá deildarkeppnum.

Fjögur ný aðildarfélög, FH, Fjölnir, Frístundamiðstöðin Bungubrekka í Hveragerði og Next Level Gaming í Egilshöll, gengu til liðs við Rafíþróttasambandið á árinu og þau nálgast nú þriðja tuginn.

Ung­menna­fé­lagið Fjölnir varð 26. aðildar­fé­lagið í september þegar stjórn RÍSÍ sam­þykkti aðildar­um­sókn ný­stofnaðrar raf­í­þrótta­deildar Fjölnis. „Við vorum með sumarnámskeið í Egilshöll sem fór alveg fram úr okkar björtustu áætlunum þegar um 200 krakkar mættu. Þetta var bara geggjað. Þau höfðu mikinn áhuga og viðbrögðin hafa sýnt að við vorum að gera eitthvað skemmtilegt,“ sagði Þórir Viðarsson, aðalþjálfari Fjölnis í rafíþróttum, í haust.

„Þetta er náttúrlega nýtt sport á Íslandi og fólk er ennþá bara að átta sig á því að þetta sé til og í boði fyrir krakka,“ hélt Þórir áfram og segir reynsluna þegar hafa sýnt að mikil eftirspurn er eftir öflugu rafíþróttastarfi í fjölmenni Grafarvogs og nágrennis.

„Okkur finnst alveg frábært að hingað til okkar eru krakkar að koma á æfingar sem hafa kannski ekki fundið sig í öðrum íþróttum. Þau koma oft gangandi eða með strætó eftir skóla með vinum sínum sem eru kannski að fara á æfingu í öðrum íþróttum hjá Fjölni og það er fallegt að sjá síðan einn fara á rafíþróttaæfingu og annan á æfingu í fótbolta, körfubolta eða einhverju þannig.“

Spennandi möguleikar og tækifæri

„Það er virkilega ánægjulegt að ganga til liðs við RÍSÍ og það frábæra starf sem sambandið hefur unnið undanfarin ár. Ég sé mikil tækifæri í rafíþróttum og hlakka til að taka þátt í því að styðja við aukinn vöxt þeirra á Íslandi,“ sagði Jökull Jóhannsson þegar tók við starfi framkvæmdastjóra Rafíþróttasambandsins í vor. 

Þórir Viðarsson, aðalþjálfari Fjölnis í rafíþróttum, segir gríðarlega fallegt að …
Þórir Viðarsson, aðalþjálfari Fjölnis í rafíþróttum, segir gríðarlega fallegt að sjá krakka kynnast í gegnum tölvuleiki. Ljósmynd/Viktor Birgisson

Jökull er fyrrum atvinnumaður í rafíþróttum og spilaði á sínum tíma fyrir enska liðið Fnatic í leiknum Hearthstone. Jökull er með M.Sc. gráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla og hafði starfað við fjárfestingar og fyrirtækjaráðgjöf áður en hann réði sig til RÍSÍ.

Breytingar urðu einnig á stjórn RÍSÍ á árinu þegar Kári Björnsson tók við stjórnarformennsku af Evu Margréti Guðnadóttur. Þá komu Árný Daníelsdóttir, Atli Már Guðfinnsson og Grímur Freyr Björnsson ný inn í stjórn þar sem fyrir voru Þengill Björnsson, Bjarni Sigurðsson, Ásbjörn Daníel Ásbjörnsson, Sölvi Már Sigurjónsson og Árveig Lilja Bjarnadóttir.

Sjónvarp Símans með rafíþróttir í beinni

Síminn og Rafíþróttasambandið sameinuðust á árinu um það markmið að breyta rafíþróttalandslaginu á Íslandi með stórbættu aðgengi og meiri sýnileika rafíþrótta. RÍSÍ hefur þannig nýtt sjónvarpsdreifikerfi Símans til þess að koma dagskrárgerð sinni beint heim í stofu eða snjalltæki alls áhugafólks um rafíþróttir. 

Síminn og RÍSÍ færa rafíþróttir heim í stofu

Beinar útsendingar frá deildarkeppnum RÍSÍ hófust í Sjónvarpi Símans í september og hafa aldrei verið jafn umfangsmiklar en eftirfarandi deildir birtust þar með í sjónvarpi í fyrsta skipti: Míludeildin í Valorant kvenna, Íslandsmót Símans í Netskák, Kraftvéladeildin í Dota 2, Tölvulistadeildin í Overwatch og ELKO-Deildin í Fortnite.

Öflugir eftirskjálftar

„Rafíþróttir hafa verið í miklum vexti á heimsvísu. Það er ánægjulegt að taka þetta skref núna með Símanum og hlakkar okkur til samstarfsins,“ sagði Jökull Jóhannsson, framkvæmdastjóri RÍSÍ, við upphaf samstarfsins þar sem einnig bar til tíðinda að netskák bættist við keppnisgreinar RÍSÍ en Íslandsmótið í netskák 2024 var í boði Símans.

Eva Margrét Guðnadóttir lét af stjórnarformennsku Rafíþróttasambandsins á árinu.
Eva Margrét Guðnadóttir lét af stjórnarformennsku Rafíþróttasambandsins á árinu. mbl.is/Hákon Pálsson

Birkir Ágústsson, dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Símanum og fyrrum keppandi í Quake, benti við sama tækifæri á að umfang rafíþrótta á Íslandi hafi snaraukist frá því Síminn hélt Skjálfta, fyrsta rafíþróttamót landsins, árið 1998.

„Með þessu nýja samstarfi við RÍSÍ tökum við saman næstu skref og styðjum áframhaldandi vöxt rafíþrótta á Íslandi,“ sagði Birkir og minnti á að rafíþróttir væru stór og mikilvægur hluti af íþrótta- og tómstundalífi Íslendinga. „Útsendingar frá þeim eru ekki bara vinsælt sjónvarpsefni heldur líka frábær afþreying.“ 

Ólympíuleikar í rafíþróttum

Til þeirra stórtíðinda dró í rafíþróttaheiminum í sumar að alþjóðlega Ólympíunefndin samþykkti einróma tillögu framkvæmdastjórnar Ólympíusambandsins um að koma á sérstökum Ólympíuleikum í rafíþróttum. 

Fyrstu Ólympíuleikarnir í rafíþróttum, Olympic Esports Games, verða haldnir í Sádi-Arabíu á næsta ári en framkvæmdastjórn Ólympíusambandsins hefur gert tólf ára samstarfssamning við Ólympíusamband Sádí Arabíu um aðkomu að skipulagi og utanumhaldi Olympic Esports Games.

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir rafíþróttir,“ sagði Ólafur Hrafn Steinarsson, stofnandi Rafíþróttasambands Íslands og einn helsti talsmaður rafíþrótta hér á landi. 

„Þetta er gríðarstórt skref fyrir rafíþróttir á heimsvísu og mikil viðurkenning fyrir það starf sem hefur verið unnið hér á landi, en frá upphafi hefur það alltaf verið markmið RÍSÍ að nálgast rafíþróttir á sömu forsendum og íþróttir, í gegnum skipulagt starf og með heilbrigði og hamingju í fyrirrúmi.“

Jökull Jóhannsson, framkvæmdastjóri RÍSÍ, var ekki síður ánægður með ákvörðun Ólympíunefndarinnar: „Þetta fyllir okkur hjá RÍSÍ innblæstri og hvetur okkur áfram í þeirri vinnu að tryggja að á Íslandi sé öflugt umhverfi fyrir rafíþróttir og að Ísland geti tekið virkan þátt í að byggja rafíþróttaumhverfi heimsins.“ 

Jökull Jóhannsson tók við starfi framkvæmdastjóra Rafíþróttasambandsins á árinu,
Jökull Jóhannsson tók við starfi framkvæmdastjóra Rafíþróttasambandsins á árinu,

Tímamót á heimsmeistaramóti

Alþjóðlega rafíþrótta­sam­bandið (IESF) hélt Heims­meist­ara­mót­ið í rafíþrótt­um í sextánda sinn í nóvember. Mótið markaði ýmis tíma­mót en þannig var til dæm­is í fyrsta sinn boðið upp á keppni kvennaliða í Mobile Le­g­ends Bang Bang (MLBB) og keppn­in í kvenna­deild Coun­ter Strike hef­ur aldrei verið jafn um­fangs­mik­il með sam­an­lagt verðlauna­fé upp á 160.000 doll­ara, eða ríf­lega 22 millj­ón­ir ís­lenskra króna.

Besta rafíþrótta­fólk Indó­nes­íu gerði held­ur bet­ur góða ferð á mótið og tryggði landi sínu alls­herj­ar heims­meist­ara­titil­inn í annað sinn með fyr­ir­mynd­ar frammistöðu í öll­um keppn­is­grein­um móts­ins.

Full­trú­ar Tyrk­lands komu einnig sterk­ir inn og tryggðu þjóð sinni ein gull­verðlaun og ein bronsverðlaun. Sú frammistaða dugði þó ekki til að skyggja á hóp­inn frá Indó­nes­íu sem fór heim með eft­ir­sótt­asta titil­inn á mót­inu, alls­herj­ar heims­meist­ara­titl­in­um, WEC24 Overall Champ­i­on.

Þetta var í annað sinn sem Indó­nes­ar hömpuðu þess­um titli en hann hlotn­ast því liði sem þykir skara fram úr þvert á all­ar keppn­is­grein­ar móts­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert