Rocket League: Flott ár og persónulegur sigur

Stefán Máni Unnarsson, mótastjóri, leikmaður og Íslandsmeistari í Rocket League …
Stefán Máni Unnarsson, mótastjóri, leikmaður og Íslandsmeistari í Rocket League lítur yfir árið í GR Verk Deildinni og horfir fram á veginn.

„2024 var mjög flott en það sem stendur upp úr á árinu, fyrir mig persónulega, er náttúrlega að ég vann og er Íslandsmeistari í deildinni,“ segir Stefán Máni Unnarsson, mótastjóri og leikmaður Þórs í GR Verk Deildinni í Rocket League.

„Ég er búinn að spila þennan leik í næstum því fimm ár og það er mjög gaman að vinna loksins.“

Stefán segir aðkomu Rafíþróttasambandsins að deildarkeppnunum hafa verið bæði góða og gagnlega en hann hefur í tvígang komið að mótastjórn. Bæði fyrir og eftir að RÍSÍ kom að mótahaldinu. „Það var alveg mjög næs að fá RÍSÍ inn og það hefur hjálpað mjög mikið.“

Hvað GR Verk Deildina varðar segir Stefán mjög ánægjulegt að óvenju mörg ný andlit hafi látið sjá sig á árinu en hann þakkar þessa þróun aðkomu RÍSÍ að deildinni. „Þau hjálpa okkur mikið að auglýsa og það sést á þessu.“

Stefán segist aðspurður ekki búast við öðru en að næsta ár verði enn hressilegra en 2024. „2025 verður mjög skemmtilegt og aðeins öðruvísi,“ segir Stefán og bendir á að nokkrar breytingar verði gerðar á keppnisfyrirkomulaginu.

Undir lok ársins fagnaði Stefán Íslandsmeistaratitlinum í Rocket League ásamt …
Undir lok ársins fagnaði Stefán Íslandsmeistaratitlinum í Rocket League ásamt félögum sínum í Þór.

„Það verður náttúrlega RIG (Reykjavík International Games) núna í janúar og svo verður Stórmeistaramót í stað þess að hafa deildarkeppni aftur.“ Stefán bætir við að hann hafi ekki orðið var við annað en nokkuð almenna ánægju með þetta innan Rocket League samfélagsins.

„Þetta verður dálítið öðruvísi eftir að hafa verið með tvær deildir á ári í tæplega fimm ár. Þannig að þetta er spennandi breyting.“

Skráning fyrir Reykjavík International Games er þegar hafin á slóðinni https://bit.ly/RLRIG25 þar sem allar frekari upplýsingar er að finna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert