2025 verður það besta hingað til

Eyrún í Overwatch, Daníel í Valorant, Hrannar í Dota 2, …
Eyrún í Overwatch, Daníel í Valorant, Hrannar í Dota 2, Björn í netskákinni, Aron í Fortnite og Stefán í Rocket League líta ánægð um öxl og horfa spennt fram á veginn. Ljósmynd/Samsett

Fulltrúar sjö keppnisdeilda Rafíþróttasambandsins, ýmist lýsendur, keppendur eða mótastjórar kveðja árið 2024 hæstánægð.

Hörkuspenna, óvænt úrslit, metfjöldi í einu kvennadeildinni og stílfimi bestu skákmanna landsins teljast meðal hápunkta ársins sem gefur svo góð fyrirheit um framhaldið að Íslandsmeistarinn í Counter Strike telur óhætt að fullyrða að 2025 verði það besta hingað til.

Óvænt úrslit

Eyrún Elíasdóttir úr mótastjórn Tölvulistadeildarinnar í Overwatch er ein þeirra sem gera upp rafíþróttaárið 2024 í meðfylgjandi myndbandsannál þar sem hún nefnir einfaldlega úrslitin í deildinni sem hápunkt ársins 2024.

„Allt tímabilið var það næstum fyrirliggandi niðurstaða að Þór myndi ná titlinum. Næstum allir leikir 3-0, ósigraðir allt tímabilið, þannig að sjá framförina og æfinguna hjá Dusty rísa í gegnum tímabilið og á endanum sigra Þór með svona miklu öryggi - það var hreinlega magnað.“

Næsta ár það besta hingað til

Þorsteinn Friðfinnsson var sigursæll í Counter Strike og getur ekki verið annað en í skýjunum með árið sem hann kláraði með Íslandsmeistaratitli þegar hann leiddi Dusty til sigurs í Ljósleiðaradeildinni.

Þorsteinn Friðfinnsson er almennt talinn besti Counter Strike leikmaður landsins …
Þorsteinn Friðfinnsson er almennt talinn besti Counter Strike leikmaður landsins og renndi stoðum undir það með því að vinna alla mögulega sigra á árinu.

„Það var gaman að vinna öll mót sem maður keppti í á árinu,“ segir hann og spáir enn betra Counter Strike ári 2025. „Það er búið að breyta fyrirkomulaginu með styttri deildum og fleiri mótum þannig að ég held að þetta verði bara besta árið hingað til.“

Aðlögunarhæfni skákmeistara

Björn Ívar Karlsson lýsti viðureignum í Íslandsmóti Símans í netskák en þetta var fyrsta árið sem keppt er í netskák á vegum Rafíþróttasambands Íslands.

„Ég var mjög ánægður að sjá hvað okkar bestu skákmenn sem tóku þátt í þessu móti voru duglegir að aðlaga stílinn sinn að andstæðingnum og aðlagast breyttum aðstæðum í einvígjunum,“ segir Björn Ívar meðal annars í annálnum.

Metfjöldi keppenda

Þegar Daníel Máni Óskarsson, lýsandi og mótastjóri einu kvennadeildarinnar, Míludeildarinnar í Valorant, er spurður hvað bar hæst á árinu er svarið einfaldlega bara aðsóknin á mótið.

„Það var náttúrlega bara aðsóknin,“ segir Daníel og bendir á að þegar átta lið og 50 konur skrái sig til leiks og fjöldi þátttakenda tvöfaldist þannig á einu ári sé ekki annað hægt en horfa björtum augum fram á veginn og velta fyrir sér hversu langt verði hægt að komast.

Góðra vina fundir

„Við erum með ágæta reynslu og höf­um verið að halda mót í mörg ár. Bæði bara sjálf­ir og í sam­starfi við RÍSÍ. Við vor­um með stóru deild­ina sjálf­ir síðasta vor en hóf­um síðan aft­ur sam­starf við RÍSÍ og vor­um með Litlu-Kraft­véla­deild­ina og svo er það Stóra-Kraft­véla­deild­in eft­ir ára­mót,“ segir Hrann­ar Mar­el Svövu­son, mótastjóri Kraftvéladeildarinnar í Dota 2.

Hrannar Marel er mjög ánægður með Kraftvéladeildina á árinu sem …
Hrannar Marel er mjög ánægður með Kraftvéladeildina á árinu sem er að líða. Hann og félagar hans fara því fullir eftirvæntingar inn í nýtt rafíþróttaár.

„Mótið stóð yfir í rétt rúma þrjá mánuði og úr­slit­in gengu bara virki­lega vel fyr­ir sig. Þetta voru flott úr­slit, spenn­andi leik­ir, mjög mik­il stemn­ing og fullt af fólki sem mætti.“ 

Þegar Hrann­ar er spurður hvað standi upp úr í minn­ing­unni hjá hon­um per­sónu­lega frá rafíþrótta­ár­inu 2024 nefn­ir hann reglu­leg­an hitt­ing hans og fé­lag­anna í móta­stjórn­inni á keppn­is­tíma­bil­inu.

„Við erum þrír fé­lag­ar sem erum í mót­stjórn og erum mest hérna inni í stúd­íói og það er búið að vera virki­lega skemmti­legt að vera hérna með þeim einu sinni í viku. 

Ég held ann­ars að það megi segja að þetta sam­fé­lag okk­ar sé frek­ar lítið og þétt þannig að flest­ir þekkj­ast frek­ar vel. En fyrst og fremst stend­ur upp úr hjá mér hvað það er búið að vera virki­lega gam­an að vera hérna í stúd­íó­inu í Ar­ena viku­lega.“

Gaman að byrja vel

Aron Fannar, lýsandi leikja í ELKO-Deildinni í Fortnite, er ekki síður ánægður með árið en öll hin og spáir enn frekari uppgangi og fjöri í Fortnite og rafíþróttum almennt á nýju ári.

„Við vorum að byrja þetta í ár. Þetta var fyrsta tímabilið núna og það gekk rosa vel og það er gaman að byrja vel. Þannig að það stefnir í góða átt.“

Sigurinn í deildinni stendur upp úr

„2024 var mjög flott en það sem stend­ur upp úr á ár­inu, fyr­ir mig per­sónu­lega, er nátt­úr­lega að ég vann og er Íslands­meist­ari í deild­inni,“ seg­ir Stefán Máni Unn­ars­son, móta­stjóri og leikmaður Þórs í GR Verk Deild­inni í Rocket League.

Stefán Máni Unnarsson, mótastjóri og Íslandsmeistari í Rocket League kveður …
Stefán Máni Unnarsson, mótastjóri og Íslandsmeistari í Rocket League kveður árið sáttur og brunar vongóður inn í nýja árið.

Hvað GR Verk Deild­ina varðar seg­ir Stefán mjög ánægju­legt að óvenju mörg ný and­lit hafi látið sjá sig á ár­inu en hann þakk­ar þessa þróun aðkomu RÍSÍ að deild­inni. „Þau hjálpa okk­ur mikið að aug­lýsa og það sést á þessu.“

Stefán seg­ist aðspurður ekki bú­ast við öðru en að næsta ár verði enn hressi­legra en 2024. „2025 verður mjög skemmti­legt og aðeins öðru­vísi,“ seg­ir Stefán og bend­ir á að nokkr­ar breyt­ing­ar verði gerðar á keppn­is­fyr­ir­komu­lag­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert