Ár eftirminnilegra afleikja

Björn Ívar segir alla skrautlegu afleikina og tilfinningarnar tengdar þeim …
Björn Ívar segir alla skrautlegu afleikina og tilfinningarnar tengdar þeim standa upp úr á Íslandsmótinu í netskák.

„Við erum mjög ánægðir með hvernig til tókst. Það var mikill áhugi fyrir þessu, gott áhorf og spennandi keppni,“ segir Björn Ívar Karlsson sem sá um beinar lýsingar frá Íslandsmótinu í netskák, ásamt Ingvari Þór Jó­hann­es­syni.

Eins og Björn Ívar bendir á þótti mótið bæði skemmtilegt og hörkuspennandi en því lauk í desember þegar Hjörvar Steinn Grétarsson stóð uppi sem Íslandsmeistari í netskák eftir að hafa sigrað Helga Ólafsson í úrslitaeinvíginu.

Þetta var í fyrsta skipti sem keppt var í netskák á vegum Rafíþróttasambandsins og í ljósi þess hvernig til tókst telur Björn Ívar víst að netskákmótið sé komið til að vera. 

„Mér sýnist það. Hérna er mikill spenna fyrir því og margir möguleikar. Og keppendur erum mjög ánægðir með þetta,“ segir Björn Ívar og bætir við að keppendur séu þakklátir fyrir að boðið hafi verið upp á svona viðburð og að skákin fái þennan vettvang.

Hjörvar Steinn sagði í viðtali við Ingvar Þór og Björn Ívar, strax að loknu einvíginu, að með þessu móti væri í raun, í krafti frum­kvæðis Rafíþrótta­sam­bands Íslands, verið að ryðja braut­ina inn í framtíðina. Hann sagðist tekha framtíð skákarinnar liggja á netinu og að innan örfárra ára yrði miklu meira um mót eins og Íslandsmótið í netskák.

Björn Ívar segist, aðspurður, geta tekið undir þetta upp að vissu marki. „Já, það eru margir þeirrar skoðunar,“ segir Björn Ívar og nefnir heimsmeistarann Magnus Carlsen sem dæmi.

„Ég held að það sé alveg margt til í þessu þótt ég sé kannski ekki alveg að öllu leyti sammála. Ég er alveg á því að kappskákin eigi sína framtíð en ég held að þetta sé klárlega vettvangurinn til þess að sýna almenningi. Það er aðgengilegra fyrir almenning að sjá þetta þarna. Það er miklu meiri spenna og meiri tilfinningar. Þannig að þetta er klárlega málið fyrir hinn almenna áhugamann.“

Þegar Björn Ívar var spurður hvað honum sjálfum þætti eftirminnilegast frá mótinu nefndi hann sérstaklega aðlögunarhæfni keppenda og ótrúlega afleiki.

„Ég var mjög ánægður að sjá hvað okkar bestu skákmenn, sem tóku þátt í þessu móti, voru duglegir að aðlaga stílinn sinn að andstæðingnum og aðlagast breyttum aðstæðum í einvígjunum. 

Menn virtust geta sett upp svona ákveðið plan bara eftir því við hvern þeir voru að tefla og móta sig að þeim. Það var mjög gaman að sjá það og mér fannst menn bara almennt tefla ótrúlega vel í þessu þó að það væru auðvitað afleikir inn á milli.“

Björn Ívar bætti síðan við að mótið hafi í það heila verið mjög skemmtilegt og mikil áskorun. „Við höfum ekki gert svona áður þótt við höfum unnið að sambærilegum verkefnum. Þetta var náttúrlega  svolítið stórt fyrir okkur þannig að ég er mjög ánægður með hvernig til tókst hjá öllum.“

Björn Ívar benti jafnframt á að einhvern veginn hefði líka tekist að fá nýtt fólk inn í þetta og margir hafi að sama skapi fengið tækifæri til að sanna sig í netskákinni. „Það sem stendur upp úr hjá mér, kannski í heildina, eru allir þessir skrautlegu afleikir sem maður sá á mótinu og tilfinningarnar sem fylgdu þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka