Skemmtileg samheldni í Overwatch

Mótstjórinn Eyrún Elíasdóttir segir samheldni alls þess skemmtilega fólks sem …
Mótstjórinn Eyrún Elíasdóttir segir samheldni alls þess skemmtilega fólks sem myndar Overwatch samfélagið á Íslandi hafa verið það ánægjulegasta við nýliðið rafíþróttaár.

„Að sjá hvernig samfélagið stendur saman. Það væri engin keppni án spilara auðvitað, en það er svo mikil þátttaka,“ segir Eyrún Elíasdóttir úr mótastjórn deildarinnar í Overwatch þegar hún er spurð hvað henni fannst ánægjulegast við nýliðið rafíþróttaár.

„Ekki bara fólk að keppa, heldur að mæta á „minimót“, „community nights“, lýsendur sem bjóða sig fram vegna áhuga og tæknimenn, meðlimir mótastjórnar sem voru öll bara hluti af samfélaginu,“ heldur Eyrún áfram og bendir á sjálfa sig eina þeirra sem byrjuðu svona og enduðu með að axla meiri ábyrgð síðar.

„Það eru svaka margir nýjir sem bættust við þetta árið, eins og Helenzo sem vann neðri deildina eftir flottustu framför yfir eitt tímabil sem við höfum nokkurn tímann séð.

Og Vicci, sem mætti og hristi í öllum með Doomfist. Við værum hvergi án svona ótrúlega skemmtilegs og metnaðarfulls fólks sem er Overwatch samfélagið.“

Ár mikilla framfara

Eyrún bendir einnig á að miklar framfarir hafi orðið á síðasta ári eftir að Rafíþróttasambandið tók betur utan um öll rafíþróttasamfélögin og þau í Overwatch hafi fundið sérstaklega mikinn mun á milli ára.

Hvað hápunkta í hennar deild varðar nefnir Eyrún einfaldlega nokkuð óvænt úrslit bikarsins. „Ég held einfaldlega úrslitin. Allt tímabilið var það næstum fyrirliggjandi niðurstaða að Þór myndi ná titlinum.

Næstum allir leikir 3-0, ósigraðir allt tímabilið, þannig að sjá framförina og æfinguna hjá Dusty rísa í gegnum tímabilið og á endanum sigra Þór með svona miklu öryggi - það var hreinlega magnað.“

Eyrún segir útlitið bjart fyrir framhaldið 2025. Stjórnin ætli þó aðeins að anda yfir hátíðarnar og hvílast eftir annasamt ár áður en farið verði í djúpar pælingar. „En það eru plön fyrir allskonar skemmtilegt tengt Overwatch eftir áramót hjá okkur,“ segir hún og bætir við að uppástungur frá samfélaginu um ýmislegt áhugavert verði meðal þess sem skoðað verði betur á nýju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka