„Það var bara gaman að vinna öll mót sem maður keppti í á árinu,“ segir Þorsteinn Friðfinnsson sem var óstöðvandi með Dusty í Counter Strike á nýliðnu ári og sigraði allt sem hægt var að sigra.
„Þetta var bara geggjað og nóg af skemmtilegum mótum,“ segir Þorsteinn, eða THOR eins og hann kallar sig á vígvelli Counter Strike, um rafíþróttaárið 2024 þegar hann slær hér botninn í áramótauppgjör deildanna sjö sem keppt var í á vegum Rafíþróttasambandsins í fyrra.
Hann nefnir sérstaklega Stórmeistaramótið á fyrri hluta síðasta árs, HRinginn, Fragg-mótin og Ljósleiðaradeildina þar sem hann stóð uppi sem sigurvegari með Dusty í lok nóvember.
„Það var skemmtilegt að deildinni var breytt þannig núna að hún var spiluð á LAN-i. Það er mjög skemmtilegt hversu mikið er að gera í rafíþróttum á Íslandi. Allaveganna í Counter Strike.“
Þegar Þorsteinn er spurður um persónulega hápunkta á nýliðnu ári nefnir hann óslitna sigurgöngu sína í fyrra. „Fyrir mig var bara geggjað að við unnum náttúrlega Stórmeistaramótið og svo líka HRingin og deildina,“ segir Þorsteinn og bendir á að þessa sigra hafi hann alla unnið með mismunandi samsettum liðum.
Þorsteinn er 24 ára og hefur verið sigursæll í sinni keppnisgrein undanfarin áratug og telur síðasta ár líklega það næstbesta á ferli sínum.
„Þetta var klárlega, 100%, með mínum betri árum og er örugglega í næst mestu uppáhaldi hjá mér á eftir 2022. „Það var bara virkilega gaman að vinna öll mót sem maður keppti í á árinu með mismunandi liðum en samt ganga bara einhvern veginn vel.“
Þegar Þorsteinn er beðinn um að spá um framtíðina og rafíþróttaárið sem er fram undan segist hann ekki eiga von á öðru en að árið 2025 verði enn betra en 2024.
„Núna er búið að breyta fyrirkomulaginu þannig að deildirnar eru styttri og mótin verða fleiri. Ég held að þetta verði bara besta árið hingað til.“