„Þetta kom heldur betur á óvart og ég bjóst ekki við þessu,“ segir Alfreð Leó Svansson, einn lykilmanna Þórs í Counter Strike, um valið á honum sem Íþróttakarli Þórs 2024.
Kjör íþróttafólks Þórs fer þannig fram að hverri deild er heimilt að tilnefna karl og konu úr sínum röðum sem aðalstjórn kýs síðan á milli.
Alfreð Leó, eða „allee**“ eins og hann kallar sig í leiknum er vitaskuld hæstánægður með heiðurinn sem honum er sýndur með þessu og neitar því ekki að titillinn feli í sér ákveðna viðurkenningu á því að keppnisgrein hans sé alvöru íþrótt.
Knattspyrnukonan Sandra María Jessen var valin Íþróttakona Þórs 2024 en hún tók þátt í öllum leikjum Þórs/KA á öllum KSÍ-mótunum, var markadrottning Bestu deildarinnar og valin besti leikmaðurinn.
Við valið á Alfreð Leó var vísað til þess að hann væri einn af lykilleikmönnum Þórs í Ljósleiðaradeildinni og að hann hafi vakið „mikla athygli fyrir frammistöðu sína á þessu tímabili, sérstaklega með AWP byssunni“ þar sem hann hafi sýnt „framúrskarandi hæfileika og nákvæmni“ sem hafi gert hann að ómissandi liðsmanni.
„Með stöðugri frammistöðu og mikilvægu framlagi i leikjum hefur Alli verið lykilmaður í mörgum sigrum Þórs. Það er ljóst að hann er einn af bestu leikmönnum deildarinnar og framtíðin er björt fyrir hinn síunga Alla og Þórsliðið.“ Þá var einnig bent á að lið Þórs hafi verið valið lið ársins í vor.
„Við unnum Ljósleiðaradeildina náttúrlega fyrir þetta umspil eða playoff,“ segir Bjarni Sigurðsson, formaður Rafíþróttadeildar Þórs, að vonum hæstánægður með að lykilmaður í Counter Strike liði félagsins hafi fengið þessa viðurkenningu.
„Ég er mjög ánægður með þetta en hefði að vísu viljað vinna tvöfalt,“ segir Bjarni Sigurðsson, formaður Rafíþróttadeildar Þórs, og vísar þar til þess að Árveig Lilja Bjarnadóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í Counter Strike og ein efnilegasta rafíþróttakona landsins, var tilnefnd sem íþróttakonu ársins hjá félaginu.
„Það er þá búið að sniðganga okkur bæði,“ segir Bjarni og hlær en Árveig Lilja er dóttir hans og hann sjálfur varð Íslandsmeistari í pílu 2015 án þess að sá titill dygði til þess að gera hann að íþróttamanni ársins hjá Þór.
Bjarni var einmitt formaður Pílukastsdeildar Þórs þegar grunnurinn að rafíþróttadeildinni var lagður þegar píludeildin skipti um húsnæði og hann áttaði sig á að það gamla hentaði vel undir rafíþróttadeild.
Hann sagði undirtektir dræmar í upphafi en „svo sáu þeir ljósið og við keyrðum á þetta. Þetta náttúrlega sprakk svo út strax í upphafi og það komu yfir 300 krakkar til okkar fyrsta árið.“
Deildin hafi síðan stækkað hratt og örugglega með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á félagslíf krakkanna í bænum. „Þannig að helsta vandamálið við vöxtinn í þessu er kannski skorturinn á þjálfurum,“ segir Bjarni sem þekkir fjölmörg dæmi um hvernig skipulagða rafíþróttastarfið hafi rofið félagslega einangrun og auðgað tilveru krakka í bænum.
„Við erum líka inni í Skólavali á Akureyri sem valgrein og það hefur bara reynst mjög vel. Við erum líka að fá margar rosalega góðar sögur sem tengjast ekkert endilega rafíþróttum. Foreldrar hringja í okkur til þess að þakka fyrir að börnin eru byrjuð að tengjast öðrum krökkum og fara til dæmis í sund með vinum sínum. Tengjast einhverjum öðrum, skilurðu? Og um það snýst þetta.“