Grátlegt fyrir Sindra

RIG í Counter Strike er í fullum gangi og átta …
RIG í Counter Strike er í fullum gangi og átta liða úrsltin rétt handan við hornið.

Fylkir, ace.X, Aurora og Venus eru komin áfram í átta liða úrslit RIG í Coun­ter Strike eftir sigra á andstæðingum sínum í gærkvöld. Fylkir náði vopnum sínum í lokaleiknum gegn Sindra sem sat uppi með „grátleg“ úrslit eftir að hafa misst niður vænlega stöðu.

Í þessari þriðju umferð RIG mættust sömu lið og tókust á í þeirri fyrstu og úrslitin urðu þau sömu. Fylkir vann Sindra 2:1, ace.X felldi Hjólið á Enska úr keppni 2:1, Verðbólga steinlá gegn Aurora 0:2 og Venus afgreiddi Dusty JR 2:1.

Tóm­as Jó­hanns­son og Ólaf­ur Hrafn Stein­ars­son voru á sínum stað í myndveri Rafíþróttasambandsins og lýstu að þessu sinni leik Sindra og Fylkis í beinni útsendingu í Sjón­varpi Sím­ans og streym­is­rás­um Rafíþrótta­sam­bands­ins.

Þeir voru á einu máli um að leikurinn hafi verið vel valinn hjá þeim þar sem ekkert vantaði upp á spennuna og hasarinn þar sem bæði lið sýndu góða takta.

Sindri vann fyrsta leikinn, verðskuldað, 13:10. Fylkismenn náðu hins vegar vopnum sínum í þeim næsta og sigruðu 13:9. Staðan var því 1:1 fyrir lokaleikinn í Anubis þar sem skiptust á skin og skúrir.

Sindri var kominn með vænlega stöðu sem hann tapaði niður. Eitthvað sem Ólafur Hrafn taldi „grátlegt“ fyrir liðið en þeirTómas gátu hins vegar ekki annað en dáðst að Fylki sem gerði „þvílíka endurkomu“ með „bakið upp við vegg“ og kom sér áfram með frábærum leik.

Björninn og enn síður keppnin eru þó unnin hjá liðunum fjórum sem komust áfram í átta liða úrslitin því þeirra bíða vel smurðar maskínur Dusty, Kano, VECA og Sögu sem fóru þangað lóðbeint í krafti fyrri afreka á Counter Strike vellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert