Stóra-Kraftvéladeildin, sú 4. í röðinni, verður keyrð í gang í lok janúar og spennan farin að hlaðast upp í Dota2-samfélaginu enda skráning í fullum gangi. Þegar er ljóst að heljarinnar hamagangur er framundan því eitthvað er um að glæný lið ætli að skora rótgróin gengi á hólm.
Rafíþróttafélag Arena er á meðal nýju liðanna og er sett saman úr gamla liðinu Frændafli og Tropa De Elite (TDE) þannig að þarna eru engir græningjar á ferð. Eins og nafn liðsins ber með sér er það á samning við Arena Gaming og er fyrsta liðið sem Arena sendir til keppni.
Hrannar Marel Svövuson (Özil), Mati Wesoly (Matiwesoly) og Bergur Árnason (flying) koma úr Frændaflinu en bræðurnir Helge Snorri Seljeseth ( Crazy Leprechaun) og Jón Ingvi Seljeseth (Ingmundur) spiluðu seinast fyrir TDE.
Frændafli tók þátt í Kraftvéladeild 2 og 3 en varð síðan að Kuta í Litlu- Kraftvéladeildinni. Þá tóku hins vegar þeir Bergur, Hrannar og Mati ekki þátt.
Kraftinn vantar ekki í deildina, frekar en venjulega, og til mikils að vinna því verðlaunaféð nemur að þessu sinni 500.000 krónum sem deilast á þrjú efstu sætin. Úrslitin fara síðan fram með pompi og prakt í Arena sunnudaginn 10. maí.
Deildin verður með svipuðu sniði og áður en þó með örlitlum breytingum. Þriðjudagar verða aðalspiladagar en sunnudagar aukadagar. Reglulegar beinar útsendingar verða sem fyrr á sunnudögum í Sjónvarpi Símans og í streymi á rásum Rafíþróttasambandsins.
Formleg liðaskráning sem og móttaka þátttökugjalda eru í fullum gangi en deildin er öllum opin, óháð styrkleikastigi, og öll lið eru því hvött til að taka þátt enda bráðskemmtilegt að spreyta sig í alvöru keppnisumhverfi.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag mótsins má finna á HÉR.