Kolin eru farin að hitna hressilega í RIG í Counter Strike en eftir átta liða úrslitin sem spiluð voru í gærkvöld eru Dusty, Kano, Veca og Saga komin áfram í undanúrslit.
Leikar fóru þannig á fimmtudagskvöld að Dusty sigraði Fylki 2:0 og segja má að önnur úrslit hafi verið eftir bókinni með sömu lokatölum þar sem Kano, Veca og Saga lögðu Aurora, ace.X og Venus.
Viðureign Kano og Aurora var lýst í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans og á streymisveitum RÍSÍ. Fyrri leikurinn var nokkuð köflóttur en fór að lokum 13:10 fyrir Kano sem síðan yfirspilaði andstæðingana algerlega í seinni leiknum, 13:4.
Undanúrslitin fara fram í næstu viku og hefjast með viðureign Dusty og Kano á þriðjudagskvöld en Veca og Saga gera sín mál upp á fimmtudaginn. Báðir leikir hefjast klukkan 19.30 og verða sýndir beint hjá Símanum og í streymi.
Þau tvö lið sem eftir standa á fimmtudaginn keppa síðan til úrslita í Laugardalshöll á laugardaginn, 25. janúar, þar sem mikið verður um dýrðir og stemningin þegar orðin þannig að allt Counter Strike-fólk sem mús getur valdið getur varla annað en fjölmennt á staðinn.
Því eins og Ólafur Hrafn Steinarsson, stofnandi Rafíþróttasambandsins, lýsti því við upphaf RIG, fyrr í þessum mánuði, þá skipti alvöru máli að mæta og sýna stuðning.
Hann rifjaði einnig upp hversu geggjað honum fannst að vera í Höllinni 2019, á fyrsta RIG-mótinu sem var haldið eftir stofnun RÍSÍ. Fyrir honum væru því keppnir á stórum vettvangi eins og Laugardalshöll sérstakar stundir.
Þetta væru „gæsahúðarmóment“ þannig að í raun ætti allt áhugafólk um rafíþróttir og yfirleitt öll sem hafa smekk fyrir spennandi sporti ekki að láta þennan hápunkt RIG í Counter Strike fram hjá sér fara.