Góð byrjun hjá Broskallinum og Bangsímon

Daníel Máni, Bangsímon sjálfur, var mættur á sína föstu vakt …
Daníel Máni, Bangsímon sjálfur, var mættur á sína föstu vakt í myndveri RÍSÍ til þess að keyra Míudeildina í Valorant í gang og hafði glaðbeittan Broskallinn Brimar með sér að þessu sinni. Skjáskot/RÍSÍ

Vor­tíma­bil deild­ar­inn­ar í Val­or­ant kvenna hófst á föstu­dag­inn með viður­eign Hatt­ar og ControllerZ. Daní­el Máni (Bangsím­on) og (Broskall­inn) Brim­ar lýstu leikj­um liðanna og auðheyrt að þeir eru kát­ir í upp­hafi keppn­is­tíma­bils­ins og spennt­ir fyr­ir því sem koma skal.

Brim­ar, sem síðustu miss­eri er þekkt­ari fyr­ir að lýsa leikj­um í Rocket League, sagðist rosa­lega spennt­ur fyr­ir deild­inni 2025 en hann hef­ur ekki lýst leik í Val­or­ant í tvö ár eða svo.

Deild­in hef­ur tekið nokkr­um breyt­ing­um frá því í fyrra en sex lið eru skráð til leiks að þessu sinni; sig­ur­veg­ar­ar síðasta árs, Klutz, Gold­Dig­gers, Hött­ur, ControllerZ, Ar­ena Gaming, sem hafnaði í 3. sæti á síðasta tíma­bili en kallaði sig þá Ven­us, og Breiðablik sem kem­ur glæ­nýtt inn í deild­ina.

Þeir fé­lag­ar buðu nýliða Breiðabliks að sjálf­sögðu vel­komna til keppni og vöktu at­hygli á því að í liðinu eru ung­ar stelp­ur að stíga sín fyrstu skref inn á stærra svið. Þær hafi hingað til keppt á Ung­menna­mót­um Rafíþrótta­sam­band­ins en mæti nú efni­leg­ar til leiks á móti eldri og reynd­ari spil­ur­um.

Brim­ar sagði viður­eign Hatt­ar og ControllerZ skemmti­lega byrj­un á vor­tíma­bil­inu en bæði lið sýndu góð tilþrif og Hött­ur þurfti þrjá leiki til að knýja fram sig­ur 2:1. ControllerZ vann fyrsta leik­inn 13:11 en Hött­ur jafnaði met­in með 13:10 sigri í næsta leik og kláraði dæmið með 13:7 sigri í síðasta leikn­um.

Tveir leik­ir fara fram í deild­inni á mánu­dag­inn þegar Gold­Dig­gers og Klutz mæt­ast og síðan Ar­ena Gaming og Breiðablik. Leik­irn­ir verða ekki sýnd­ir beint en næsta beina út­send­ing verður á föstu­dag­inn, 24. janú­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka