Góð byrjun hjá Broskallinum og Bangsímon

Daníel Máni, Bangsímon sjálfur, var mættur á sína föstu vakt …
Daníel Máni, Bangsímon sjálfur, var mættur á sína föstu vakt í myndveri RÍSÍ til þess að keyra Míudeildina í Valorant í gang og hafði glaðbeittan Broskallinn Brimar með sér að þessu sinni. Skjáskot/RÍSÍ

Vortímabil deildarinnar í Valorant kvenna hófst á föstudaginn með viðureign Hattar og ControllerZ. Daníel Máni (Bangsímon) og (Broskallinn) Brimar lýstu leikjum liðanna og auðheyrt að þeir eru kátir í upphafi keppnistímabilsins og spenntir fyrir því sem koma skal.

Brimar, sem síðustu misseri er þekktari fyrir að lýsa leikjum í Rocket League, sagðist rosalega spenntur fyrir deildinni 2025 en hann hefur ekki lýst leik í Valorant í tvö ár eða svo.

Deildin hefur tekið nokkrum breytingum frá því í fyrra en sex lið eru skráð til leiks að þessu sinni; sigurvegarar síðasta árs, Klutz, GoldDiggers, Höttur, ControllerZ, Arena Gaming, sem hafnaði í 3. sæti á síðasta tímabili en kallaði sig þá Venus, og Breiðablik sem kemur glænýtt inn í deildina.

Þeir félagar buðu nýliða Breiðabliks að sjálfsögðu velkomna til keppni og vöktu athygli á því að í liðinu eru ungar stelpur að stíga sín fyrstu skref inn á stærra svið. Þær hafi hingað til keppt á Ungmennamótum Rafíþróttasambandins en mæti nú efnilegar til leiks á móti eldri og reyndari spilurum.

Brimar sagði viðureign Hattar og ControllerZ skemmtilega byrjun á vortímabilinu en bæði lið sýndu góð tilþrif og Höttur þurfti þrjá leiki til að knýja fram sigur 2:1. ControllerZ vann fyrsta leikinn 13:11 en Höttur jafnaði metin með 13:10 sigri í næsta leik og kláraði dæmið með 13:7 sigri í síðasta leiknum.

Tveir leikir fara fram í deildinni á mánudaginn þegar GoldDiggers og Klutz mætast og síðan Arena Gaming og Breiðablik. Leikirnir verða ekki sýndir beint en næsta beina útsending verður á föstudaginn, 24. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert