Óvænt úrslit í upphafi netskákmótsins

Ingvar Þór er hér á sínum stað ásamt Birni Ívari …
Ingvar Þór er hér á sínum stað ásamt Birni Ívari en í öðru hlutverki en venjulega og ræðir hér nokkuð óvæntan sigur sinn gegn Jóhanni Hjartarsyni. Skjáskot/RÍSÍ

Sextán manna úrslit netskákmótsins Síminn Invitational hófust á sunnudagskvöld þegar þeir mættust annars vegar Helgi Ólafsson og Halldór Brynjar Halldórsson og Jóhann Hjartarson og Ingvar Þór Jó­hann­es­son hins vegar.

Björn Ívar Karlsson lýsti viðureignum kvöldsins í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans og í streymi á veitum Rafíþróttasambandsins, eins og vera ber. Að þessu sinni hafði hann þó stórmeistarann Helga Áss Grétarsson til skrafs og greininga því, reglulegur félagi hans, FIDE meistarinn Ingvar Þór Jó­hann­es­son, hrókeraði úr stöðu lýsanda og mætti stórmeistaranum Jóhanni Hjartarsyni sem keppandi í seinna einvígi kvöldsins.

Áður en að því kom áttust stórmeistarinn Helgi Ólafsson og Halldór Brynjar Halldórsson við. Helgi var í góðu formi í gærkvöld, tefldi af öryggi og nýtti öll mistök Halldórs og stóð uppi sem sigurvegari 4:0.

Helgi Áss spáði meiri spennu í einvígi Jóhanns og Ingvars og benti á að þótt gamla brýnið, Jóhann, væri betri skákmaður þá væri Ingvar glúrinn á netinu og betri skákmaður þar en yfir borðinu.

Úrslitin urðu síðan nokkuð óvænt en Ingvar sigraði einvígið með fjórum vinningum á móti tveimur hjá Jóhanni. 

Eftir sigurinn tók Ingvar sér sína reglulegu stöðu í settinu hjá Birni Ívari í örstutt spjall um sigurinn sem hann sagði hafa komið honum sjálfum á óvart. Hann hafi átt von á að tapa gegn Jóhanni en að sama skapi hafi hann ef til vill mætt rólegri til leiks.

Ingvar Þór og Helgi Ólafsson eru þá komnir áfram í átta manna úrslit en keppnin heldur áfram á sunnudaginn, 26. janúar, þegar þrjú einvígi verða tefld en þá mætir landsliðskonan Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir stórmeistaranum Braga Þorfinnssyni, stórmeistararnir Helgi Áss Grétarsson og Hannes Hlífar Stefánsson takast á og síðast en alls ekki síst alþjóðlegu meistararnir Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Björn Þorfinnsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert