„Háskólalífið úti er alveg geggjað og félagsskapurinn góður, þrátt fyrir suma kana sem eru smá spes,“ segir Emil Páll Matthíasson sem spilar Overwatch með liði Cumberland University í Bandaríkjunum.
Þar stundar hann nám í heilsu- og íþróttafræði á skólastyrk sem hæfni hans í leiknum skilaði honum. „Ég hefði aldrei látið mér detta þetta í hug fyrir tveimur árum vegna þess að þá var ég hreinlega ekki að keppa á nógu háu stigi til þess að þetta væri möguleiki,“ segir Emil Páll um þá stöðu sem Overwatch hefur skapað honum nú. „En um leið og ég sá að þetta væri mögulegt fannst mér ekkert annað koma til greina.“
Emil Páll ólst upp í Neskaupstað en flutti í Kópavoginn árið 2020 og þar byrjaði hann fyrst að spila Overwatch, tölvuleikinn sem ruddi honum menntabrautina frá Íslandi alla leið í háskóla í Tennessee í Bandaríkjunum.
„Ég var áður mjög mikið í Counter-Strike: Global Offensive,“ segir Emil Páll sem er hvorki fyrsti né síðasti leikjaspilarinn sem tekur sín fyrstu skref í þeim margrómaða skotleik. „Ég hætti síðan að spila Counter Strike og fór yfir í Overwatch þegar ég frétti að Overwatch 2 væri að koma út.“
Hann ákvað umsvifalaust að spreyta sig í keppni og skráði sig til leiks á HRingnum 2021. „Þá var ég glænýr spilari og gekk ekkert svakalega vel á mótinu en ég varð samt sem áður háður þessu umhverfi og á næstu fjórum mánuðum fór ég frá „Diamond“ upp í „Grandmaster“ og skráði mig til keppni í almenna bikarnum.
Emil Páll segist hafa farið frekar hægt af stað í almenna bikarnum enda hafi hann þar mætt sterkum liðum og góðum spilurum með mikla reynslu. „Þrátt fyrir það hélt ég áfram að gera allt sem ég gat til að bæta mig,“ segir Emil Páll sem lét smá mótlæti ekki slá sig út af laginu. „Og á endanum var ég orðinn meðal bestu spilara landsins á Tank.“
Emil Páll keppti síðan með íslenskum liðum á nokkrum mótum erlendis með góðum árangri sem hann segir þó að hefði getað orðið töluvert betri. „Vegna þess að okkur tókst alltaf að klúðra mikilvægustu leikjunum sem hefðu annars komið okkur áfram á sterkari mót.“
Þegar Emil Páll er spurður hvernig í ósköpunum ungur Íslendingur hafi farið að því að komast á námsstyrk í bandarískum háskóla í krafti þess að vera góður í tölvuleik eins og Overwatch segist hann einfaldlega hafa látið þau boð út ganga að hann væri að leita sér að bandarísku háskólaliði.
„Ég fékk mörg boð og byrjaði í prufuferli sem endaði með því að ég fór til Cumberland University,“ segir Emil Páll. „Við höfum, sem lið, náð mjög miklum árangri eftir að hafa aðeins keppt saman í eina önn,“ segir Emil Páll um liðið sem hefur komið verulega á óvart í vetur.
„Við unnum Deild II í NECC og PlayFly Varsity taplausir. Unnum Faceit Advanced division og náðum 12. sæti í Homecoming-mótinu sem er stærsta háskólamót ársins og með þessum árangri förum við í stærsta LAN-mót ársins, sem er haldið í Texas, í maí.“
Hægt er að fylgjast með rafíþróttaferli Emils Páls á Twitch þar sem hann er reglulega með streymi.
„Þannig að næsta önn verður töluvert erfiðari og þá þurfum við að sanna okkur aftur á móti sterkustu liðunum í landinu,“ segir Emil Páll sem með liði sínu er kominn í 14. sæti á topp 20 lista OWCRA, sem hann lýsir sem einhvers konar dómnefnd sem leggi mat á styrkleika allra háskólaliða í Bandaríkjunum í Owerwatch.
Rafíþróttasíða Cumberland University á X
Cumberland University hefur aldrei náð slíkum árangri í Overwatch áður en liðið sem er allt skipað nýnemum, fyrir utan einn, hefur á tímabilinu meðal annars lagt að velli rótgróin lið úr hópi þeirra tíu sem tróna efst á lista OWCRA.