Frank Williams hefur boðið BAR-liðinu þrjár milljónir punda - um 390 milljónir króna - fyrir að leyfa Jenson Button að fara til síns gamla liðs þegar á næsta ári í stað þess að bíða til 2006, en þá fengi Williams hann fyrir ekki neitt.
Williams hefur heitið því að virða niðurstöðu samningsréttaráð formúlunnar sem úrskurðaði á miðvikudag að Button væri samningsbundinn BAR-liðinu út næsta ár; láta ekki frekar á málið reyna með því að fara með það fyrir dómstóla.
Með því hefur hann þó ekki gefið upp alla von um að fá Button til sín á næsta ári og hefur - ólíkt því sem jafnan er venjan - seilst dýpra ofan í vasa sína til að reyna að kaupa hann.
Innanbúðarmaður hjá Williams segir að Sir Frank geti ekki boðið brjálæðislegar fjárhæðir en hafi samt gert BAR tilboð til að samþykkja eða hafna. Í vikunni sagði BAR-stjórinn David Richards að hann teldi Williams ekki hafa efni á því að kaupa Button til sín, ekki einu sinni með óútfylltri ávísun.