Toyota hefur sett sér það sem ófrávíkjanlegt takmark að vinna jómfrúarsigur sinn í formúlu-1 í ár, á sjötta ári sínu í íþróttinni. Liðinu gekk afleitlega í fyrra en nú ætlar það að gera betur. Fyrst allra formúluliða frumsýndi Toyota í dag keppnisbíl sinn. Athöfnin fór fram í Köln.
Ökuþórar Toyota komust nokkrum sinnum á pall árið 2005 en þeir áttu vi ðmeira mótlæti að stríða á nýliðnu ári. Komst Ralf Schumacher á pall í öðru móti ársins en síðan ekki söguna meir.
Við athöfnina í Köln sögðu forsvarsmenn liðsins að það yrði að taka skref fram á við í ár og vinna sinn fyrsta mótssigur. „Ég hef unnið hjá Toyota í rúm 30 ár og hef kunnað vel við vilja fyrirtækisins að takast á við miklar áskoranir,“ sagði forseti liðsins, John Howett.
Hann sagði formúluliðið gott dæmi um þetta og nú væri liðið viljugt að rita nýjan kafla í íþróttasögu Toyota með því að vinna mótssigur í ár. „Það er of snemmt að tala um titla en fyrsta meiriháttar áskorunin til að sigrast á er að vinna þennan fyrsta sigur. Og það er virkilega takmarkið okkar í ár,“ sagði Howett.
Hann sagði ljóst að árangurinn 2006 hefði verið undir væntingum og óásættanlegur. Of mikið hefði verið um að bíllinn hefði ekki enst í kappakstri.
Jarno Trulli sagði vísbendingar komnar fram um að 2007-bíllinn tæki forverandum mjög fram, bæði hvað varðar vængpressu og vélræna skilvirkni. „Ég býst því vi ðbetri árangri en í fyrra, en við verðum að komast á brautina áður en við getum fellt dóma,“ sagði Trulli.