Kristján Einar Kristjánsson sætti mótlæti er hann keppti í dag í formúlu-3 í hinni frægu Spa Francorchamps braut í Belgíu. Ekið var aftan á hann í seinni kappakstrinum svo hann féll að lokum úr leik.
Framfjöðrunin í bíl Kristjáns Einars skemmdist er hann fékk bíl á sig í fyrstu beygju hringsins. Bíllinn hélst þó á brautinni við samstuðið og Kristján streittist við að halda áfram.
Á fjórða hring festist hins vegar stýrið endanlega og hann flaug útaf. Bíllinn staðnæmdist á grasbala og sakaði hvorki bílstjóra eða bíl frekar.
„Þetta voru hrikaleg vonbrigði og erfitt að sætta sig við að ákeyrslu í sömu beygju á fyrsta hring í báðum keppnunum,“ segir Kristján Einar á heimasíðu sinni.
„Á þriðja hring missti ég bílinn út af í Pouhon u-beygjunni en kom honum aftur inn á brautina. Nokkrum sekúndum seinna brotnaði fjöðrunin endanlega þegar ég bremsaði fyrir Busstop s-beygjurnar. Stýrið festist og ég ók beint út úr braut," sagði Kristján Einar ennfremur.
Fyrsta beygjan reyndist mörgum dýrkeypt og samtals sjö bílar sem luku ekki keppni vegna óhappa þar.
Í fyrra mótinu í dag varð Kristján Einar sjötti í landsflokki. Hann átti góða ræsingu, tók fram úr sex bílum á fyrstu metrunum.
Í beygju á fyrsta hring var hins vegar ekið aftan á hann, bíllinn snérist út úr braut og dýrmætar sekúndur töpuðist við að koma honum aftur inn á brautina.
„Eftir þetta náði ég aldrei að minnka bilið í næsta bíl nóg til að fá kjölsog sem er eina leiðin til að taka framúr á beinu köflunum hér,“ sagði Kristján Einar.
Hann reyndi þó til þrautar og setti í leiðinni langhraðasta tíma landsflokksbílanna á einu af þremur tímasvæðum brautarinnar. Og var raunar næst fljótastur allra bíla úr báðum flokkum á þeim kafla, mældist á 246,8 km hraða.
Viktor Þór Jensen var skráður til leiks í mótinu en kom ekki á vettvang. Lið hans mætti þó til keppni og tefldi fram þýskum ökuþór í landsflokki sem ekki hefur keppt í undanförnum sex mótum.