„Silverstone er auðvitað drottning bresku brautanna og það ríkir eftirvænting í Carlin-hópnum,“ segir Kristján Einar Kristjánsson en hann keppir í formúlu-3 í hinni sögufrægu braut um helgina. Þar fór fyrsti kappakstur sögunnar í formúlu-1 fram og er útfærsla brautarinnar nánast hin sama nú sem þá.
Kristján Einar gekk um Silverstone-brautina í dag og undirbjó sig undir helgina. Æfingar fara fram í fyrramálið og tímatökur síðdegis þar sem báðar keppnir helgarinnar fara fram á laugardag í stað sunnudags.
„Þetta verður stutt og snörp lota hjá okkur um helgina. Ástæðan er sú að við höldum til Búkarest og keppum á götum borgarinnar 23. og 24. ágúst. Til að allt gangi upp þar leggja risatrukkar liðanna af stað með bílana, viðgerðalagerinn og verkstæðin strax eftir seinni keppnina á laugardaginn,“ segir Kristján Einar.
Hann hefur ekki áður keppt á Silverstone, en snemma á keppnistímabilinu átti Carlin Motorsport einn æfingadag þar fyrir lið sitt og fékk Kristján Einar þá tækifæri til að spreyta sig í henni.
„Ég var mjög sáttur við þessa braut þegar við æfðum þar í vor, hún er með öfluga beygjukafla sem ég fæ mikið út úr að takast á við og hún er hröð þótt maður nái ekkert í áttina að hraðanum á Monza eða Thruxton. En hún er áskorun og þetta verður spennandi helgi,“ segir hann.
Þriðju helgina í röð verður Kristján Einar eini keppandi Carlin í landsflokksliði þar sem Andy Meyrick liðsfélagi hans missir nú af þriðju keppnishelginni vegna alvarlega veikinda. Þar með missir hann og möguleika á að sigra mótaröðina sem hann leiddi með miklum yfirburðum framan.
„Ég finn mikið fyrir því að hann er ekki í hópnum því liðsfélagar vinna mikið saman með tækniupplýsingar og það hefur komið sér vel að vinna með samanburð frá albesta landsflokksökumanninum sem er þar á ofan frábær liðsfélagi,“ segir Kristján Einar.
Carlin-liðið stendur hins vegar mjög vel að vígi í alþjóðaflokknum og hefur verið mjög öflugt í flestum mótum ársins. Fjórir keppendur þess náðu þeim einstaka árangri í Spa Francorchamps-brautinni í Belgíu á dögunum að verða í fjórum fyrstu sætum í mark.
Slíkt hefur aldrei gerst áður í sextíu ára sögu formúlu 3. Þrír þeirra eru í sex manna hópnum sem slæst hart um sigur í alþjóðaflokknum í hinni besku formúlu-3. Þ.e.a.s Jaimie Alguersari og Brendon Hartley sem Carlin þjálfar fyrir Red Bull og Oliver Turvey sem Carlin þjálfar fyrir samtök fyrrum breskra heimsmeistara, Racing Steps Foundation.
„Þessir strákar eru allir frábærir ökumenn, búnir með sjö, átta ár í kappakstri og tveir byrjaðir að æfa á formúlu-1 bílum. Það hefur skipt miklu máli fyrir mig að hafa aðgang að svona einstaklingum sem eru líka alltaf tilbúnir að aðstoða og veita ráð,“ segir Kristján Einar um liðsfélaga sína sem hann hefur lært mikið af.