Fékk aksturstölvuna næstum í kjöltuna

Kristján Einar í Silverstone í dag.
Kristján Einar í Silverstone í dag.

Kristján Ein­ar Kristjáns­son varð fyr­ir þeirri ein­kenni­legu upp­lif­un, að akst­urstölva bíls­ins losnaði þegar skammt var eft­ir af fyrri kapp­akstri dags­ins í formúlu-3 í Sil­verst­one.

„Ótrú­leg­ustu hlut­ir ger­ast í kapp­akstri en að akst­urstölv­an losni, detti inn i stýrið og fest­ist hljóm­ar frem­ur eins og atriði í teikni­mynd en í raun­veru­leik­an­um. En þetta kom fyr­ir í kapp­akstr­in­um í morg­un og ég þurfti nán­ast áfalla­hjálp þegar það gerðist,“ sagði Matt Ogle, tækn­i­stjóri Kristjáns Ein­ars.

Hann átti ekki annarra kosta völ en dóla heim í bíl­skúr og sætta sig við sjö­unda og síðasta sæti þeirra sem í mark komu í lands­flokkn­um, en átt­undi kepp­and­inn var áður fall­inn úr leik. Hann varð einnig sjö­undi í flokkn­um í seinna mót­inu í dag.

Aðeins ein æf­ing var á braut­inni i gær fyr­ir keppni og Kristján Ein­ar missti af henni vegna vand­ræða í bíln­um sem ekki náðist að leysa áður en henni lauk. Hann notaði því fyrri tíma­tök­una til að vinna með liðinu í að fínstilla bíl­inn fyr­ir braut­ina og varð fyr­ir vikið aft­ast­ur á rá­slín­unni.

Það kom ekki að sök því líkt og á Spa átti hann öfl­ugt start og keyrði sig upp hóp­inn á fyrstu metr­un­um. Um skeið var hann kom­inn upp í fjórða sæti í flokkn­um er tölv­an losnaði.  Við það fest­ist stýrið og Kristján Ein­ar fór út úr braut­inni í beygju. Losaði hann tölv­una út stýr­inu og lauk keppni með „laug­ar­dags­bíltúr um Sil­verst­one“, eins og hann lýsti hring í akst­urstölvu­laus­um bíln­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka