Kristján Einar Kristjánsson varð fyrir þeirri einkennilegu upplifun, að aksturstölva bílsins losnaði þegar skammt var eftir af fyrri kappakstri dagsins í formúlu-3 í Silverstone.
„Ótrúlegustu hlutir gerast í kappakstri en að aksturstölvan losni, detti inn i stýrið og festist hljómar fremur eins og atriði í teiknimynd en í raunveruleikanum. En þetta kom fyrir í kappakstrinum í morgun og ég þurfti nánast áfallahjálp þegar það gerðist,“ sagði Matt Ogle, tæknistjóri Kristjáns Einars.
Hann átti ekki annarra kosta völ en dóla heim í bílskúr og sætta sig við sjöunda og síðasta sæti þeirra sem í mark komu í landsflokknum, en áttundi keppandinn var áður fallinn úr leik. Hann varð einnig sjöundi í flokknum í seinna mótinu í dag.
Aðeins ein æfing var á brautinni i gær fyrir keppni og Kristján Einar missti af henni vegna vandræða í bílnum sem ekki náðist að leysa áður en henni lauk. Hann notaði því fyrri tímatökuna til að vinna með liðinu í að fínstilla bílinn fyrir brautina og varð fyrir vikið aftastur á ráslínunni.
Það kom ekki að sök því líkt og á Spa átti hann öflugt start og keyrði sig upp hópinn á fyrstu metrunum. Um skeið var hann kominn upp í fjórða sæti í flokknum er tölvan losnaði. Við það festist stýrið og Kristján Einar fór út úr brautinni í beygju. Losaði hann tölvuna út stýrinu og lauk keppni með „laugardagsbíltúr um Silverstone“, eins og hann lýsti hring í aksturstölvulausum bílnum.