Búist við 300.000 áhorfendum á formúlu-3 í Búkarest

Frá keppni í Búkarest í fyrra, Viktor Þór á ferð …
Frá keppni í Búkarest í fyrra, Viktor Þór á ferð í brautinni neðarlega á myndinni. Í baksýn trónir forsetahöllin. mbl.is/jamesbearne

Næstsíðasta mótshelgi hinnar bresku formúlu-3 fer fram um helgina og keppnisvettvangurinn er ekki beint breskur. Nei, keppt verður á götum Búkarest og ekið kringum höllina miklu sem Nicolae Ceausescu fyrrverandi Rúmeníuforseti reisti sér.

Kristján Einar Kristjánsson heldur á morgun til Búkarest til keppni, en hann hefur undirbúið sig undir keppnina í London síðustu daga.

Ekið verður um götur miðborgar Búkarest og liggur brautin eins og nokkurs konar rammi um höllina miklu sem mun vera næst stærsta bygging heims, en aðeins lítill hluti hennar er ofanjarðar.

Viktor á Palli í fyrra en fjarri góðu gamni nú

Einnig var keppt í Búkarest í fyrra og gerði Viktor Þór Jensen sér þá lítið fyrir og varð í öðru sæti í landsflokki. Hann hefur keppt í alþjóðaflokknum í ár en hætti fyrir skömmu með liði sínu og verður því ekki meðal keppenda um helgina.

Áætlað er að um 300.000 manns verði í stúkum og stæðum meðfram keppnisbrautinni og fylgist með keppni helgarinnar. Strax eftir kappaksturinn í Silverstone á laugardag hélt lest flutningabíla keppnisliðanna áleiðis til Rúmeníu með hafurtask liðanna.

Þeir voru væntanlegir til rúmensku höfuðborgarinnar í dag. Vegna tíðra árása glæpagengja á flutningabíla í Rúmeníu var ákveðið að trukkar liðanna allra færu í samfloti. Frá landamærum Rúmeníu til Búkarest var þeim heitið lögreglufylgd.

Mistök geta orðið dýrkeypt

„Megin munurinn á götukappakstri og keppni á öðrum brautum er að hver mistök í Búkarest binda enda á aksturinn. Það er hvorki gras eða möl utan brautar til að renna sér út á, heldur bara vegrið og veggir. En þetta er ótrúlega spennandi og ég get ekki beðið eftir að komast í bílinn á föstudagsæfingunni,“ segir Kristján Einar Kristjánsson um helgina framundan.

„Ég hef verið í London frá því við lukum keppnishelginni á Silverstone og dagarnir farið í andlegan og líkamlegan undirbúning. Ég hef unnið í að læra brautina í Búkarest með því að keyra hana aftur og aftur á upptökum úr keppnisbílum frá í fyrra. Þess á milli hef ég verið í slökun.

Svo hafa verið ófá og löng símtöl á milli mín og Sam Bird þessa daga, en hann var akstursþjálfarinn minn í formúlu BMW í fyrra og vann kappakstur í Búkarest í fyrra þegar hann ók þar fyrir Carlin-liðinu,“ segir Kristján Einar einnig.

Keppt verður tvisvar um helgina, fyrra mótið fer fram á laugardag og hið seinna á sunnudag.

Að keppni lokinni í Búkarest verður aðeins eftir ein mótshelgi hjá Kristjáni Einari og félögum  í formúlu-3. Fer hún fram í Donington í Englandi í október. 

Svo jöfn er keppnin um sigur að fjórir ökumenn eiga enn möguleika á að hreppa meistaratitil bresku formúlunnar. Sá sem hampar titli að loknum kemst í hóp ökumanna á borð við Ayrton Senna, Mika Häkkinen, Nelson Piquet, Takuma Sato, Rubens Barrichello og Jackie Stewart, svo einhverjir meistarar mótaraðarinnar séu nefndir.

Viktor Þór fremstur í fylkingu í Búkarest í fyrra en …
Viktor Þór fremstur í fylkingu í Búkarest í fyrra en hann stóð sig þar mjög vel.
Viktor Þór (l.t.v.) á verðlaunapalli í Búkarest.
Viktor Þór (l.t.v.) á verðlaunapalli í Búkarest.
Sam Bird, félagi Kristjáns Einars, á leið til sigurs í …
Sam Bird, félagi Kristjáns Einars, á leið til sigurs í Búkarest í fyrra. Forsetahöllin í baksýn.
Athafnasvæði formúluliðanna í Búkarest.
Athafnasvæði formúluliðanna í Búkarest.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert