Kristján á vegg í Búkarest

Kristján Einar á ferð í Búkarest.
Kristján Einar á ferð í Búkarest. mbl.is/fota

„Það er skrítið að verða allt í einu áhorfandi, en við keppum eftir sömu öryggisreglum og formúla-1 og eftir þeim verður að fara," sagði Kristján Einar Kristjánsson sem fékk ekki leyfi frá læknum formúlu-3 til að keppa í Búkarest í dag vegna höggs sem hann hlaut í hörðum árekstri í þeim fyrri.

Atvikið átti sér stað á fjórða hring, í þrengstu beygju hringsins. Kristján Einar kom í gegnum hana á 160 km hraða rétt á undan tveimur bílum. Annar þeirra rakst aftan á Kristján Einar með þeim afleiðingum að vinstra afturdekkið lyftist, bíllinn snerist og flaug á vegg og kom harkalega niður.

Hinir bílarnir tveir skullu einnig saman og féllu úr leik. Hafnaði annar á veggnum handan brautarinnar. 

„Gírkassinn brotnaði við fyrra höggið og vélin skemmdist við seinni skellinn. Hinir bílarnir tveir skemmdust líka mikið og við vorum tveir sem fengum ekki leyfi til að keppa í seinna mótinu," sagði Kristján Einar.

„En öryggisbúnaðurinn sannaði sig og ég má að öllum líkindum fara að æfa og keyra aftur eftir eina til tvær vikur,“ bætti hann við.

Við atvikið var öryggisbíll kallaður út í brautina meðan laskaðir bílarnir  voru fjarlægðir. Var ekki gefið grænt ljós á að halda keppni áfram fyrr en hann hafði verið 10 hringi í brautinni.

Frá ræsingu fyrri kappakstursins í Búkarest í dag.
Frá ræsingu fyrri kappakstursins í Búkarest í dag. mbl.is/fota
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert