Myndband frá akstri Kristjáns Einars í Sebring

Kristján Einar Kristjánsson kappakstursmaður var svo sem fram kemur hér á formúluvefnum til prófunar hjá bandaríska liðinu Newman Wacks í byrjun desember. Meðfylgjandi myndband er frá því og sýnir Kristján Einar aka tvo hringi í Sebring í Flórída.

Allt útlit er fyrir að Kristján Einar keppi fyrir Newman Wacks á komandi ári í Atlantic-mótaröðinni í Bandaríkjunum. Margir sem þar kepptu áttu eftir að öðlast mikinn frama í kappakstursíþróttinni, m.a. urðu tveir þeirra heimsmeistarar í formúlu-1, Finninn Keke Rosberg 1982 og Jacques Villeneuve 1997.

Kristján Einar keppti í formúlu-3 í Bretlandi í fyrra. Þar eru brúkaðir bílar með 200 hestafla mótor. Í Atlantic-formúlunni eru þeir hins vegar mun öflugri.

„Bíllin var öflugri að takast á við en ég hafði ímyndað mér. Hann er talsvert frábrugðinn formúlu-3 bílnum. Hestöflin 300 í stað 200 og með loftflæðið í gegnum göng eins og í formúlu-1 bílunum en ekki undir bílinn eins og í formúlu-3,“ sagði Kristján Einar um aksturinn í Sebring, sem myndskeiðið er frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert