Kristján Einar Kristjánsson hefur orðið fyrir barðinu á heimskreppunni því bandarískt styrktarfyrirtæki hans hefur kippt að sér höndum. Af þeim sökum verður hann ekki meðal keppenda í Champcar Atlantic-mótaröðinni, a.m.k. ekki fyrstu keppnishelgina.
Kristján Einar fór til Bandaríkjanna í febrúar til að ganga frá samningum og hefja keppni í Atlantic-mótaröðinni sem hefst nú í marsmánuði. En eins og margir íþróttamenn aðrir hefur kreppan sett stein í götu hans.
Bandarísk fyrirtæki sem hefur verið stuðningsaðili hans og kostað undirbúninginn varð í síðustu viku að hverfa frá frekari áformum vegna efnahagskreppunnar.
„Við sjáum þetta gerast út um allt,“ segir Kristján Einar sem er staddur í Bandaríkjunum. „Það kepptu 32 í hinni bresku formúlu-3 í fyrra og núna eru 14 skráðir. Í Atlantics mótaröðinni voru 30 í fyrra en núna vonast menn til að ná 17 bílum en samt er þetta mótaröðin með veglegustu verðlaunin,“ bætir Kristján Einar við.
En hann hefur fengið stuðning úr óvæntri átt. Bílavefurinn jalopnik.com þótti miður að hann skyldi ekki geta fjármagnað keppni með Newman-Wachs liðinu. Undir áskoruninni „Jalopnik tekur að sér ökuþór“ segir vefurinn frá honum í löngu og ítarlegu máli og hvetur lesendur til að styðja hann svo hann geti keppt.
Í framhaldinu var sett upp stuðningssíða á facebook sl. fimmtudag undir yfirskriftinni „I'm supporting Kristjan Einar“ og hafa yfir þúsund manns skráð sig í stuðningshópinn. „Þetta eru frábær viðbrögð og fjöldinn skiptir gríðarlegu máli í leit að nýjum samstarfsaðilum,“ segir Kristján Einar.
Yfir þúsund lesendur vefjarins hafa lýst stuðningi við Kristján Einar og markmið aðstandenda síðunnar er að sá hópir stækki um annað eins.