Kristján Einar Kristjánsson tekur þátt í lokaumferðum hinnar opnu evrópsku formúlu-3 í Katalóníuhringnum í Barcelona um helgina. Hefur hann keppni í fyrra mótinu í áttunda sæti í sínum flokki.
Tímatökurnar í morgun hófust í rigningu en síðan stytti upp og var hringurinn þurr undir lokin. „Ég fór út á regndekkjum en kom ekki inn til að skipta í þurrt fyrr en undir lok tímatökunnar. Það reyndist einfaldlega of seint og ég endaði áttundi á þurrdekkjum eftir að hafa verið með þriðja besta flokkstímann á blautu.
Svo það er ekkert um annað að ræða en vinna sig upp á við þegar út í keppnina er komið,“ sagði Kristján Einar.
Ríkissjónvarpið sýnir beint frá báðum keppnum í Barcelona, en sú fyrri stendur nú yfir. Á morgun hefst útsending klukkan 15:00.
Kristján Einar hefur verið við æfingar á brautinni í tvo daga en hann er eini keppandi helgarinnar sem er að aka hana í fyrsta sinn.
„Þetta er öflug braut og
reynir mikið á mann í stóru löngu beygjunum sem hún er fræg fyrir. En
hún er ekki sú erfiðasta sem ég hef kynnst. Hins vegar eru svo margir
Spánverjar í mótaröðinni, og þetta er heimabraut þeirra, að það verður ekkert gefið eftir í keppninni, svo mikið er víst,“ sagði Kristján Einar í dag.
West Tec liðið hefur átt góðu gengi að fagna í Barcelona. Norðmaðurinn Thor Christian Ebbesvik og liðsfélagi Kristján Einars vann copa-flokkinn þar í hitteðfyrra, 2007. Og gangi allt upp nú eru líkur á að annar liðsfélagi hans, Callum Macleod, geti tryggt sér
meistaratitilinn í copa-flokknum í ár.