Kamui Kobayashi er sagður á leið aftur til keppni í formúlu-1 og þá sem liðsmaður Caterham. Til hans sást í bækistöðvum liðsins í vikunni.
Kobayashi hinn japanski er sagður reynslumesti ökumaðurinn sem nú sé til skoðunar hjá Caterham en liðinu er sagt áfram um að ráða þrautreyndan mann við hlið yngri ökumanns, en miklar líkur eru á að sænski nýliðinn Marcus Ericsson verði í hinum bíl liðsins.
Finnski ökumaðurinn Heikki Kovalainen hefur verið inni í myndinni lengi og var samningsbundinn liðinu í ár sem reynsluökumaður. Með honum fylgir hins vegar ekkert styrktarfé, sem Caterham þar svo mjög á að halda, og því hafa möguleikar hans dvínað.
Hið sama á við um Skotann Paul di Resta en hann er nú atvinnulaus eftir að hafa keppt síðustu þrjár vertíðirnar með Force India.
Tony Fernandes og meðeigendur hans eru sagðir ófúsir til að halda áfram að dæla fjármagni sínu til liðsins og því blasir við að reynslumaður með styrktarfé, eins og Kobayashi, stendur best að vígi. Hermt er að honum myndi fylgja sex milljónir evra til liðsins.
Endurkoma Kobayashi þykir til þess fallin að auka verulega áhuga fyrir japanska kappakstrinum í Suzuka meðal heimamanna. Hann keppti síðast í formúlunni í fyrra með Sauber og stóð sig vel.