Caterham á útleið

Kamui Kobayashi á ferð í Austurríki um nýliðna helgi.
Kamui Kobayashi á ferð í Austurríki um nýliðna helgi. mbl.is/afp

Tony Fernandes, eigandi Caterhamliðsins í formúlu-1,  gefur til kynna að hann sé að reyna að losa sig og lið sitt úr íþróttinni en það er slakast keppnisliðanna ellefu.

Árið hefur verið Caterham erfitt en það hefur verið á botninum allar götur frá því það kom til sögunnar árið 2010.

Malasíski kaupsýslumaðurinn, sem á einnig flugfélagið AirAsia og enska fótboltaliðið Queens Park Rangers lokaði tvittersíðu sinni í dag með þessum hætti: „F1 hefur ekki virkað en [ég] elska [sportbílafyrirtækið] Caterham Cars“.

Lið Fernandes keppti í fyrstu undir merkjum Lotus Racing, Team Lotus og eftir kaup hans á breska sportbílasmiðnum Caterham nefndi hann lið sitt eftir honum.

Caterhamliðið varð í 10. sæti í keppni bílsmiða í formúlu-1 fyrstu þrjú árin en varð að játa sig sigrað af Marussia í fyrra. Það hefur verið í ellefta og neðsta sæti það sem af er ári og virðist ætla að sitja í því.

Áður en vertíðin gekk í garð varaði Fernandes starfsmenn Caterhamliðsins við og sagðist myndu auglýsa liðið til sölu sýndi það ekki verulegar framfarir í ár.

Kamui Kobayashi á ferð í Austurríki um nýliðna helgi.
Kamui Kobayashi á ferð í Austurríki um nýliðna helgi. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert