Svo gæti farið að Carlos Sainz yngri, sonur og alnafni einhvers mesta rallökumanns sögunnar, sé á leið til keppni í formúlu-1.
Carlos Sainz Jr. keppir fyrir Red Bull í formúlunni Formula Renault 3.5 en þar eru bílar ögn smærri og kraftminni en í formúlu-1 og úr henni hafa nokkrir ökumenn gengið til keppni í formúlu-1. Nýjasta dæmið um það er Daninn Kevin Magnussen hjá McLaren sem varð meistari í fyrra í Renaultformúlunni.
Sainz yngri hefur átt í viðræðum við Caterham og þá meðal annars með það í huga að hann hefji keppni þegar í ár, á seinni helmingi vertíðarinnar.
Hinn 19 ára gamli spænski ökumaður er í forystu í keppninni um titil ökumanna í Renaultformúlunni. Takmark hans hefur verið að komast um síðir að hjá Toro Rosso og gæti keppni með Caterham komið sér vel sem undirbúningur að því.
Fyrir Caterham keppa Kamui Kobayashi og Marcus Ericsson en rétt fyrir hálfum mánuði urðu eigendaskipti að liðinu og sæti þeirra því í nokkurri óvissu.