Nýir eigendur Caterhamliðsins hafa gengið hratt til verka í þeim tilgangi að draga úr tilkostnaði. Vegna þess hefur rúmlega 40 starfsmönnum af um 350 verið sagt upp.
Meðal þeirra sem þurft hafa að taka pokann eru aðstoðartæknistjórinn Jody Eggington og Gerry Hughes, stjórnandi liðsins á keppnisstað.
Talsmenn og fulltrúar Caterhamliðsins neita að tjá sig um aðgerðirnar en hermt er að þær séu aðeins fyrsti liðurinn í ráðstöfunum til að draga úr rekstrarkostnaði liðsins sem berst fyrir tilveru sinni vegna fjárskorts.
Liðið var selt fyrir nokkrum vikum en ekkert hefur verið látið uppi hverjir nýir eigendur þess eru annað en að þar sé um að ræða hóp fjárfestenda í Sviss og í Miðausturlöndum.
Nýju eigendurnir settu fyrrverandi formúlukeppendann Christian Albers sem liðsstjóra, John Iley fyrrverand loftaflsfræðing hjá bæði Renault og Ferrari sem tæknistjóra og Colin Kolles, fyrrverandi liðsstjóra Midland, Spyker og HRT sem sérlegan ráðgjafa sinn. Hann er almennt talinn í raun vera aðalstjórnandi liðsins nú.
Heimildir herma að þeir sem nú hafa misst starfið hafi verið tekjuhæstu starfsmenn Caterhamliðsins, svo sem forstöðumenn deilda og yfirmenn hinna ýmsu sviða.