Afþakkar að keppa í formúlu-1

Andre Lotterer í Spa í Belgíu.
Andre Lotterer í Spa í Belgíu. mbl.is/afp

Það þarf líklega sterk bein og skýran hug til að afþakka boð um að keppa í formúlu-1. Það hefur þýski ökumaðurinn með franska nafnið, Andre Lotterer, nú gert.

Ástæðan fyrir því að Lotterer afþakkar gott boð er að hann segist ekki með þá reynslu í formúlu-1 að hann geti sest í keppnisbílinn nokkrum mínútum fyrir ræsingu. Miklu heldur þyrfti hann að fá að aka á æfingunum og tímatökunni líka til að telja gagn eða ávinning af því að keppa, að því er fram kemur í belgíska blaðinu La dernière heure.

Hann ók fyrir Caterhamliðið á belgísku kappaksturshelginni en féll úr leik á fyrsta hring vegna áreksturs.

„Þegar mér var tjáð  að Roberto Merhi myndi aka á fyrstu æfingunni í minn stað þá dró ég mig til baka og sagði liðinu að þá kæmi ekki til greina að ég keppti. Ég er byrjandi í formúlu-1 og þarf á því að halda að fá að spreyta mig á æfingum. Það er ekki auðvelt að neita boði um að keppa en ég held ég hafi breytt rétt,“ hefur blaðið eftir Lotterer.

Með þessu eru allar líkur á að Kamui Kobayashi setjist á ný í sæti sitt en hann var látinn víkja fyrir Lotterer á belgísku kappaksturshelginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert