Hóta að draga sig til baka

Algjör óvissa ríkir að nýju um framtíð Caterhamliðsins.
Algjör óvissa ríkir að nýju um framtíð Caterhamliðsins. mbl.is/afp

Fjárfestar sem keyptu Caterhamliðið í sumar gætu neyðst til að draga sig út úr formúlu-1. Segja þeir að formlega séð sé liðið enn í eigu seljandans, Tony Fernandes, þar sem hann hafi ekki getað afhent hlutabréfin í liðinu.

Fernandes seldi hópi svissneskra og arabískra fjárfesta Caterhamliðið í enda júlí. Snurða hljóp fljótt á þráðinn er starfsmenn sem sagt hafði verið upp hófu lögsókn á hendur liðinu. Hald var lagt á hluta bílsmiðju þess í þágu málarekstursins. Loks fór svo að fyrirtæki  að nafni Caterham Sports Limited (CSL) var veitt greiðslustöðvun en það var eitt af helstu samstarfsfyrirtækjum liðsins.

Í yfirlýsingu sem hinir nýju eigendur sendu frá sér í dag segir að þeir séu nú í þeirri stöðu að geta ekki sinnt fjármögnun liðsins vegna þess að þeir hafi engin skjöl milli handa er sanni eign þeirra á því. Þetta muni hafa afdrifarík áhrif til hins verra fyrir rekstur liðsins.

Loks segir í yfirlýsingu kaupendanna að þeir áformi málshöfðun á fyrrverandi eiganda liðsins, Fernandes, fyrir samningsbrot. Klykkja þeir út með því að segja einn möguleikann þann að þeir dragi sig til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert