Samskotin duga til að keppa í lokamótinu

Caterhamliðið kemur út úr skugga fjarveru og keppir í lokamótinu …
Caterhamliðið kemur út úr skugga fjarveru og keppir í lokamótinu í Abu Dhabi.

Caterhamliðið tilkynnti í dag, að það myndi keppa í lokamóti vertíðarinnar sem fram fer um aðra helgi, 23. nóvember,  í Abu Dhabi við Persaflóa. Þetta er mögulegt vegna samskota á söfnunarvef á netinu.

Caterham er að öðru leyti í höndunum á skiptastjóra sem freistar þess að selja liðið nýjum fjárfestum svo ekki þurfi að koma til lokunar þess.

Hrundið var fyrir viku af stað fjársöfnun á samskotavefnum Crowdcube, sem er umsvifamesti fjárfestingasamskotavefur heims, eins og þar segir. Takmarkið var sett á 2,35 milljónir punda og í gærkvöldi höfðu safnast 1,8 milljónir punda sem gerði liðinu kleift að fara til lokamótsins en það varð að sleppa tveimur síðustu vegna fjárskorts, í Bandaríkjunum og Brasilíu.

„Á aðeins einni viku hafa unnendur Caterham og formúlunnar tekist að gera hið ómögulega mögulegt,“ sagði talsmaður skiptaráðanda liðsins um árangur af samskotasöfnuninni í dag. „Við settum okkur háleit markmið og það var þess virði,“ bætti hann við.

Hann sagði að með degi hverjum hafi áhugi fjárfesta á að yfirtaka rekstur Caterham farið vaxandi. Hann sagði það myndi styrkja söluferlið að liðið sýndi og sannaði með þátttökunni í Abu Dhabi að það væri lífs og verðskuldaði að keppa áfram í formúlu-1 á næstu árum.  

„Starfsliðið er harðsnúið, liðsandinn góður og reynslan mikil. Nú þarf aðeins að finna því fjárhagslega framtíð og við erum vongóðir að það takist. Ég vil svo ítreka að við erum á förum til Abu Dhabi vegna afar þakkarverðs framlags unnenda liðsins, framtaks sem mun varðveitast á spjöldum formúlusögunnar og við getum verið stoltir yfir.“

Caterham hefur ekki tilkynnt hverjir muni aka bílunum í Abu Dhabi en ljóst er að sænski nýliðinn Marcus Ericsson gerir það ekki, hann hefur slitið á tengsl við liðið og ráðið sig til Sauber.

Caterhamliðið kemur út úr skugga fjarveru og keppir í lokamótinu …
Caterhamliðið kemur út úr skugga fjarveru og keppir í lokamótinu í Abu Dhabi.
Caterhamliðið kemur út úr skugga fjarveru og keppir í lokamótinu …
Caterhamliðið kemur út úr skugga fjarveru og keppir í lokamótinu í Abu Dhabi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert