Skiptastjóri bús Caterhamliðsins segist ekki munu fjármagna þátttöku liðsins í reynsluakstri á Spáni í aðdraganda keppnistíðarinnar hafi ekki fundist kaupendur að liðinu fyrir þann tíma.
Í raun þýðir þetta að starfsemi hjá Caterham verður hætt um næstkomandi mánaðarmót og búið tekið til slita hafi kaupendur ekki fundist áður. Reynsluaksturslotur formúluliðanna hefjast nefnilega 1. febrúar í Jerez á Spáni.
Caterham fékk greiðslustöðvun og var sett undir stjórn skiptaráðanda í október sl. Um 200 starfsmenn voru leystir undan starfsskyldum og liðið sleppti tveimur af síðustu mótum vertíðar. Mætti hins vegar til leiks í lokamótinu og hélt þannig lífi í möguleikanum á að keppa 2015.
Skiptaráðendurnir viðurkenna nú, að tíminn sé að hlaupa frá þeim til að bjarga liðinu og atvinnu starfsmanna þess. „Viðræður eru í gangi við áhugasama aðila en hafi kaupandi ekki fundist fyrir bílprófanirnar setjum við ekki meira fjármagn í liðið,“ hefur BBC Sport eftir utanumhaldsmönnum Caterhamliðsins.