Nú er útlit fyrir að ekkert annað en dauði bíði Caterhamliðsins og það snúi ekki aftur til keppni í formúlu-1 eins og vonast hafði verið í vetur.
Skiptastjóri hefur gefist upp á tilraunum til að selja liðið og auglýst uppboð á eignum þrotabúsins.
Fyrir hálfum mánuði taldi skiptastjórinn góðar líkur á að kaupandi kæmi fram er héldi liðinu úti til keppni. Það rættist ekki í tæka tíð og hefur talsmaður uppboðshaldarans Wyles Hardy & Co. staðfest að eigur Caterhambúsins séu komnar í umsjá þess og verði seldar á röð uppboða á næstunni.
Fyrsta salan er ráðgerð 11. til 12. mars og verða þar á meðal keppnisbílar og tækjabúnaður sem brúkaður er á þjónustusvæðum móta. Fleiri uppboð eru svo ráðgerð til maíloka þar sem annar búnaður verður seldur.