Vonum að Schumacher verði aftur með okkur

Michael Schumacher slasaðist alvarlega á skíðum fyrir rúmlega tveimur árum.
Michael Schumacher slasaðist alvarlega á skíðum fyrir rúmlega tveimur árum. AFP

Sabine Kehm, talsmaður fyrrverandi ökuþórsins Michael Schumacher, vonast til þess að með áframhaldandi stuðningi og þolinmæði muni Schumacher einn daginn verða aftur á meðal fólks.

Rúmlega tvö ár eru síðan þýski ökuþór­inn Michael Schumacher slasaðist á skíðum í Frakklandi þar sem hann datt og lenti með höfuðið á steini. Hann yfirgaf spítala í september 2014 og hefur síðan þá verið hlúð að honum á heimili hans í Sviss.

„Hann er sigursælasti ökumaður í sögunni og stundum, á dögum eins og þessum, er gott að minnast þess,“ sagði Kehm þegar sýning um Schumacher var opnuð i Marburg í Þýskalandi fyrir nokkrum dögum.

„Auðvitað er Michael (Schumacher) ekki hér og auðvitað söknum við hans. Við vitum hvað gerðist og getum ekki breytt því. Við verðum að sætta okkur við það. Við vonum hins vegar að með áframhaldandi stuðningi og þolinmæði muni hann verða aftur á meðal okkar einn daginn,“ bætti Kehm við.

Í byrjun mánaðarins sagðist Luca di Monteze­molo, fyrr­ver­andi yf­ir­maður hjá Formúlu-1 liðinu Ferr­ari, vera með fréttir af Schumacher og þær væru ekki góðar. Hann neitaði að tjá sig frekar um málið en lítið er vitað um heilsu Schumacher síðan hann lenti í slysinu í lok árs 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert