Toro Rosso sýndi 2016-bíl sinn í endanlegu útliti í morgun, við upphaf seinni lotu bílprófana vetursins. Er hann knúinn Ferrarivél á ný, eftir nokkurra ára samtarf liðsins við Renault.
Grunnliturinn er djúpblár með purpurarauðum svæðum hér og þar. Er það í raun sami grunntónninn og verið hefur á bílunum frá því Toro Rosso kom til sögunnar árið 2006, er Red Bull keypti Minardiliðið.
Max Verstappen mun aka bílnum í dag en Carlos Sainz á morgun.
„Við erum stolt af þessum bíl og fyrir hvað hann stendur varðandi þá vinnu sem lögð hefur verið í hönnun hans og þróun. Þá hefur hann verið smíðaður á methraða í nýrri bílsmiðju okkar í Faenza [á Ítalíu],“ sagði liðsstjórinn Franz Tost við athöfnina.
Toro Rosso varð í sjöunda sæti af 10 liðum í stigakeppni formúlu-1 í fyrra. Besti árangur liðsins varð fjórða sæti Verstappen í bæði ungverska kappakstrinum í Búdapest og þeim bandaríska í Austin í Texas.